Saga - 1981, Page 16
14
ALBERT JÓNSSON
Breskur sjávarútvegur ætti í miklum erfiðleikum og ekki yrði
þrengt að hag breskra sjómanna.1
í viðræðum þessum, sem að sögn aðila voru könnunarviðræð-
ur, lagði breska nefndin til, að samningurinn frá 1973 yrði
notaður sem ,,vinnuplagg.“ Að viðræðunum loknum sagði Einar
Ágústsson utanríkisráðherra, að breska nefndin hefði komið fram
af mikilli kröfuhörku, og Matthías Bjarnason sjávarútvegs-
ráðherra kvað það skoðun sína, að engir samningar kæmu til
greina, meðan íslendingar væru beittir tollþvingunum í EBE-
löndunum. Hattersley kvaðst óánægður með hina löngu frestun á
framhaldsviðræðum, vegna þess hve stutt væri til 13. nóvember,
en þá féll úr gildi samkomulagið frá 1973. Frekari viðræðum var
frestað fram í byrjun október, að kröfu íslensku nefndarinnar, en
þá skyldi þinga í London.2
í viðtali við Tímann sagði Einar, að fundurinn hefði verið
„upprifjun á staðreyndum, lýsing á afstöðu hvors aðila fyrir
sig.... Mér finnst þessi fundur ekki lofa sérlega góðu um
samkomulag í nánustu framtíð.“3 Einnig kom fram að íslenska
viðræðunefndin ítrekaði, að ekki kæmi til greina að gera sam-
komulag við neina EBE-þjóð, fyrr en tollívilnanir hefðu tekið
gildi.4
Dagana 15. og 16. september fóru fram viðræður við fulltrúa
Belgíumanna. Fóru þeir fram á, að 12 togarar þeirra, sem samið
hafði verið um áður, fengju að veiða áfram innan 50 mílna næstu
2 ár. Slíkur samningur yrði reistur á 200 mílna fiskveiðilögsögu,
en yrði ekki háður bókun 6. íslensku samningamennirnir voru
ánægðir með, að Belgíumenn hefðu nú fyrstir þjóða viðurkennt
200 mílurnar við ísland, þótt með skilyrðum væri.5 Ekki varð úr
samningum að svo stöddu.6
1 Morgunblaðið (Mbl.) II. september 1975.
2 lbid 12. september 1975.
3 Tíminn 12. september 1975. Bls. 3, dálkur (d.) 3.
4 Mbl. 13. september 1975.
5 Mbl. 17. september 1975.
6 Samningar tókust um framlengingu á veiðiheimildum þeirra þann 28. nóv-
ember 1975. (Stjórnartíðindi. C—Deild, nr. 24/1975.)