Saga - 1981, Page 125
SAMTÖK GEGN VERZLUNAREINOKUN 1795
123
Jafnframt því sem einokunin var numin úr gildi, hurfu konung-
legir verzlunartaxtar úr sögunni. Framvegis skyldi verðlag á inn-
fluttum og útfluttum vörum vera samkomulagsatriði milli íslend-
inga og kaupmanna. Var þetta tekið fram í auglýsingu 18. ágúst
1786 (2.gr.) um hið nýja verzlunarfyrirkomulag og áréttað í verzl-
unartilskipun 13. júní 1787 (II.kap.,14.gr.).5
Afnám allra verðlagsákvæða í viðskiptum milli íslendinga og
kaupmanna var rökstutt með því, að slíkar hömlur samræmdust
ekki frjálsri verzlun. Auk þess hlyti samkeppni milli kaupmanna
innbyrðis að tryggja landsmönnum sanngjarnt verðlag. Sam-
keppni varð hins vegar lítil og jafnvel engin, er á reyndi. Þetta á
ekki hvað sízt við norðanlands og austan, þar sem landbúnaður
var aðalatvinnuvegur rnanna og helztu útflutningsvörur sauðfjár-
afurðir, þ.e. kjöt, tólg, ull og prjónles. Að sjávarútvegi kvað þar
aftur á móti lítið miðað við það, sem gerðist sunnanlands og
vestan. Þó var nokkur útgerð á Siglufirði og t.d. einnig sums
staðar á Austfjörðum. Annars voru hákarlaveiðar sú grein sjáv-
arútvegs, sem var aðallega stunduð norðanlands og austan. Þaðan
var því flutt talsvert hákarlslýsi. Þá var ennfremur flutt þaðan all-
mikið sellýsi, einkum frá Húsavík og Vopnafirði, því að mest var
um selveiðar á þeim slóðum.
Með því að sjávarafurðir voru jafnan miklu verðmætari og
eftirsóttari útflutningsvörur en landbúnaðarafurðir, og sjávarút-
vegur var aðallega stundaður sunnanlands og vestan, voru miklu
fleiri verzlunarstaðir þar en á Norður- og Austurlandi. Um 1795
voru 19 löggiltir eða leyfðir verzlunarstaðir sunnanlands og
vestan, en aðeins 9 norðanlands og austan. Þar með voru eðlilega
mun fleiri kaupmenn syðra og vestra en nyrðra og eystra. Auk
þess varð það fljótlega einkennandi fyrir verzlunina á Norður- og
Austurlandi, sem fyrst og fremst er fjallað um í þessari ritgerð, að
sami kaupmaður næði yfirráðum yfir verzlun í fleiri en einu kaup-
túni og öðlaðist þannig einokunaraðstöðu i stórum landshlutum.
Brautryðjandi í verzlunarháttum af þessu tagi var Georg
Andreas Kyhn, sem verið hafði kaupmaður konungsverzlunar á
^eyðarfirði. Verzlunina þar keypti hann árið 1788 og Vopna-
fjarðarverzlun árið 1794. Árið áður hafði hann tekið að verzla á