Saga - 1981, Qupperneq 300
298
RITFREGNIR
hérlendis um sína daga, og sér þess vissulega staði í bréfum hans hér. Eru
þau naumast alþýðleg lesning, enda ekki að því stefnt af hálfu höfundar.
Sveinbjörn var frábitinn afskiptum af stjórnmálum og öðru, sem hann
taldi utan verkahrings síns og þekkingarsviðs. Ekki verður þess vart að
Jón misvirði það, þó að sjálfur væri hann andstæða rektorsins í þessu til-
liti og sýndi með dæmi sínu, að vel má samrýma fræðimennsku og stjórn-
málaafskipti, að minnsta kosti að einhverju marki.
Annar i röð bréfritara er Gísli Hjáimarsson læknir, en hans bréf fylla
hér nær 65 bls., eru 29 talsins, frá janúar 1841 til 25. október 1866; Gísli
dó 13. janúar 1867. Hann er hinn eini þessara bréfritara, sem var dús við
Jón, enda voru þeir félagar á stúdentsárunum í Kaupmannahöfn. Er ann-
ars hætt við að ungu fólki nú skiljist vart að annað en merkilegheit og
hroki kunni að hafa ráðið, hversu hægt menn fóru sér í þá daga við að
verða dús eftir að þeir höfðu náð fullorðinsaldri.
Þú-bræðralagið ásamt skaplyndi Gísla ræður því sjálfsagt að hann er
þessara bréfritara léttastur í máli og hinn eini þeirra, sem þorir að láta
fjölina fljóta, þegar því er að skipta. Undir niðri má greina hjá honum
hversu erfitt og lýjandi löngum var manni í hans stöðu á íslandi. A
miðjum aldri voru flestir læknar gersamlega útslitnir; og muna ber að þá
höfðu engir ástæðu til að öfunda lækna af kjörum þeirra, hvort sem litið
var til vinnuskilyrða þeirra eða tekna.
Sigurður Guðnason umboðsmaður og hreppstjóri á Ljósavatni er hér
fulltrúi óskólagenginna íslenzkra bænda síns tíma. Hann telst þó engan
veginn til fátækra alþýðumanna, og þrátt fyrir takmarkaða fræðslu í
æsku, sem honum verður tíðrætt um, er hann félagslega sinnaður og
höfðingjadjarfur. Bréf hans hér eru einungis tvö, frá 1846 og 1847, bæði
alllöng. Hann hlýtur að vera góður fulltrúi þeirra manna á öllum tímum,
sem lengri eða skemmri hluta ævi sinnar upptendrast af pólitískum áhuga
og vilja þá ólmir fá að taka þátt í að frelsa heiminn — eða a.m.k. einhvern
hluta hans.
Bréf Þorsteins Pálssonar eru hér á 28 bls. Eru þau 13 talsins, hið elzta fra
haustinu 1845, en þá um sumarið, á fyrsta ráðgjafarþingi íslendinga,
höfðu þeir kynnzt Jón Sigurðsson þingmaður ísfirðinga og síra Þorsteinn
þingmaður Suður-Þingeyinga. Yngsta bréfið er frá 18. febrúar 1867, en
Þorsteinn dó sumarið 1873.
Þorsteinn Pálsson var einn þeirra mörgu íslenzku presta, sem meira og
fleira áttu sameiginlegt með bændum en embættis- og menntamönnum.
Kom margt til, en um Þorstein má taka fram, að hann kom aldrei i
lærðan skóla, heldur nam í heimaskóla hjá presti (verðandi tengdaföður
sínum, síra Jóni Þorsteinssyni í Reykjahlíð). Stúdentsprófi lauk hann hja
,,prívatista“, sr. Guðmundi Bjarnasyni á Hólmum í Reyðarfirði.
Að námi og prófi loknu var Þorsteinn um nokkurra ára skeið skrifari hjá sýslu-
manni og heimiliskennari, en vígðist svo aðstoðarprestur að Hálsi i