Saga - 1981, Side 311
RITFREGNIR
309
fram fór milli íslendinga og Vesturveldanna, við þekkjum markmið þeirra
og leiðir, þótt mjög sé þeim málum þlandað í bók Einars. Enn sem komið
er höfum við lítið af sambærilegum gögnum um skipti foringjanna í Kreml
við íslenska samherja sína. Við getum gert ráð fyrir því, að fleiri slík gögn
verði dregin fram í dagsljósið i framtiðinni. Eigi að síður hefði það verið
ómetanlegt fyrir samskiptasögu íslendinga við stórveldin, ef Einar hefði
leyst frá skjóðunni um þá þætti hennar, sem hann þekkir af eigin raun.
IV.
Þess er áður getið, að rit Einars sverji sig í ætt við sagnfræði austan-
tjaldsmanna, þar sem sannleikurinn er afstæður, enda fyrirskipaður af
valdamönnum. Hvergi er ættarmótið skýrara en í frásögn Einars af
tímabili því, sem hófst með griðasáttmála Hitlers og Stalíns. Flestu er þar
sleppt, sem máli skiptir um afstöðu kommúnistahreyfingarinnar til
stríðsins. Af frásögn Einars verður ekki betur séð en að kommúnistar í
austri og vestri hafi staðið utan við ófriðinn 1939. Þeir hafi virt fyrir sér
þetta ódæði imperíalista frá háum sjónarhæðum sósíalismans, skeggrætt
stríðið og skilgreint það eftir bestu sannfæringu. Nú er það svo, að í rit-
skoðunarþjóðfélögum er hægt að leyna menn liðnum stórviðburðum,
sem geta komið sér óþægilega fyrir valdhafa. En á Vesturlöndum er þessu
á annan veg farið. Því er það með ólíkindum, að þeir Einar Olgeirsson og
Jón Guðnason skuli ræða um ófriðinn og viðhorf kommúnista til hans án
þess að minnast í sömu andrá á griðasáttmála Hitlers og Stalíns. Ætlunin
er greinilega sú, að gera sem minnst úr þeim viðburði sem hleypti
styrjöldinni af stað og réð afstöðu kommúnista til stríðsþjóðanna. Hitler
hóf ófriðinn í þeirri vissu, að Stalín einvaldur Ráðstjórnarríkjanna og
kommúnistahreyfingarinnar, mundi ekki einasta veita Þjóðverjum grið,
heldur skipta með þeim ránsfengnum og liðsinna á allan hátt.
Hermenn Hitlers og Stalíns tókust í hendur á vígvellinum í Póllandi.
Bóndinn í Kreml leysti upp samfylkinguna gegn fasismanum og að því
búnu fylkti hann liði sínu um heim allan með fasistum gegn „banda-
mannaauðvaldinu.“ Þessir atburðir gerðust skyndilega. Einar Olgeirsson
°g félagar hans þurftu nokkurn tíma til að átta sig á því, til hvers átrún-
aðargoð þeirra í Kreml ætlaðist af þeim. Á meðan skilgreindu íslenskir
sósíalistar stríðið eitthvað á þá lund, sem Einar lýsir í bókinni: „þýski
nasisminn var talinn skæðasti óvinurinn, höfuðhættan sem heild, en
óvinur númer tvö var enska auðvaldið“ (bls. 91). En Einar þegir um það,
sem á eftir fór, hann felur þau algjöru umskifti, sem urðu í „sjálfstæðis-
baráttunni“, þegar þeir félagar hlýddu hinu nýja kalli Stalíns. Þetta
getum við sannreynt með því að bera ummæli sögumannsins, Einars,
saman við yfirlýsingu, sem birtist í Þjóðviljanum í mars 1940, en ritstjóri
hans var Einar Olgeirsson: