Saga - 1981, Síða 330
328
RITFREGNIR
andi, því að tímarit á að flytja ritdóma af annarri tegund en þeirri sem
dagblöðin eru einfær um að birta; sá tegundarmunur liggur ekki eingöngu
í lengd, en það er erfitt að ná tímaritstegundinni í mjög stuttu máli (þó ég
hafi sjálfur reynt það 1977 og 1980), og góðir ritdómar í Sögu, oft þrjár til
fimm síður, hafa margt fram yfir þær hálfsiðuumsagnir sem tíðkast í
sumum erlendum sögutímaritum. Þó held ég sá tími sé að koma, þegar
ritdómar Sögu eru orðnir svona blessunarlega margir, að höfundar þeirra
eigi að sníða sér stakkinn í þrengsta lagi og ritstjórar að veita þar nokkurt
aðhald. Hins vegar ættu menn, sem hafa meira að segja en ritdómur
rúmar, að skrifa gagnrýnisgreinar, lengri en ritdóma, með sjálfstæðari
athugunum og með tilvísunum; þær tíðkast í sumum ritum erlendum og
eru eðlisskyldar andmælaræðum, en Saga er vön að birta þær. Dæmigerð
gagnrýnisgrein, löng, er eftir Kolbein Þorleifsson í Sögu 1974.
Svo ég lesi enn aftan frá, verða næst fyrir athugasemdir Sigurjóns Sig-
tryggssonar (margar gagnlegar og skilmerkilegar, en sumar með ástæðu-
lausum blöskrunartóni) við grein Jóns Þ. Þór í Sögu 1976, ásamt
örstuttum andsvörum Jóns. Slíkt efni er eðlilegt í tímariti, þótt ég finni
ekki hliðstæður þess nema í orðaskiptum Lýðs Björnssonar og Jakobs
Benediktssonar 1975 og 77, og er kostur að fá svar við athugasemd í sama
árgangi.
Tveggja síðna ,,hugdetta“ Jóns Thors Haraldssonar um Solveigu
Sæmundardóttur og hugsanlegar fornar ástir Þorvalds Vatnsfirðings og
hennar, hún er af því tagi sem ekki hefur sést í Sögu undanfarin ár, en á þar
ágætlega heima.
Þá er efni í minningu Arnórs heitins Sigurjónssonar, minningargrein
eftir Björn Þorsteinsson með skrá um helstu rit, og með fylgir bréfkafh
eftir Arnór. Þá ritar Sigurgeir Þorgrímsson um uppvaxtarár Steins Dofra
og forgöngu hans að stofnun Sögufélagsins, heilmikla rannsókn á efni sem
ég veit ekki til að dregið hafi verið fram í dagsins ljós fyrr. Þar fyrir
framan rita Gísli Ágúst Gunnlaugsson og Aðalgeir Kristjánsson stutta frétt
um skjalafund í Danmörku varðandi Móðuharðindin. Þetta efni allt,
rúmar 40 síður, má með einum og öðrum hætti flokka undir félagsmál
Sögufélags og sagnfræðistéttar. Af slíku er eðlilega mismikið eftir árum-
Af svipuðu tagi er efni til minningar um Guðna Jónsson (1974) og Sverri
Kristjánsson (1976) og um Sögufélagið á afmælisári (1977).
„Staðreyndir og saga“, syrpa Björns Þorsteinssonar af athugunum,
sjónarmiðum og áhugavökum um eðli og þekkingarfræði sögunnar, er
eina greinin í Sögu seinni árin um hreint söguspekilegt efni. Grein Lofts
Guttormssonar um sagnfræði og félagsfræði 1978 og 79 stendur því sviði
þó nærri. Sá tími er trúlega að nálgast að íslendingar fari að skiptast a
skoðunum um einstök söguspekileg efni, og þá stendur Sögu næst að
verða vettvangur slíks. En eðlilegt er að fyrstu greinar á nýju sviði seu
fremur um yfirlitsefni, eins og þeirra Lofts og Björns.