Saga - 1981, Page 336
334
RITFREGNIR
Heimildir
Þegar fjallað er um rit sem þetta verður ekki hjá því komist að gæta að
þeim heimildum, sem höfundur hefur haft sér til stuðnings. í heimilda-
skrá er getið margra rita, sem notuð hafa verið sem heimildir, en það
hlýtur að vekja athygli lesandans, að þau eru flest komin nokkuð til ára
sinna og surn mega jafnvel teljast úrelt. í heimildaskránni gat ég aðeins
fundið tvö rit, sem út voru gefin eftir 1970 og er annað íslensk útgáfa
eldra rits.
Þetta mun stafa af því, hve lengi bókin hefur verið í smíðum. Við upp-
haf verksins viðaði höfundur að sér ýmsum þeim ritum, sem þá voru efst
á baugi, en gætti þess ekki að endurnýja heimildasafnið þegar árin liðu.
Þetta er bagalegt þegar þess er gætt, að mikið starf hefur verið unnið í
sagnfræðirannsóknum á síðasta áratug og hugmyndir manna um ýmsa
þætti í sögu þess tímaskeiðs, sem hér er fjallað um, eru aðrar nú en þær
voru fyrir tíu til fimmtán árum. Má sem dæmi nefna sögu siðskiptanna.
Þar hefur athygli fræðimanna í vaxandi mæli beinst að því, hvern þátt
þýsk þjóðernisstefna hafi átt í siðskiptunum: að hve miklu leyti siðskiptin
hafi verið uppreisn Þjóðverja gegn Rómarvaldinu. Munu margir nú
komnir á þá skoðun, að þarna beri að leita upptakanna, siðskiptin hafi
verið pólitísk og þjóðernisleg uppreisn miklu fremur en trúarleg og að sú
uppreisn hefði orðið hvort sem Lúther hefði komið þar nærri eða ekki.
Þá hafa ýmsir unnið að rannsóknum á siðskiptunum í einstökum þýskum
borgum. Niðurstöður þeirra rannsókna liggja enn ekki fyrir, en þó hefur
komið í ljós furðulegt ósamræmi í gangi mála frá einni borg til annarrar.
Einnig má nefna að rannsóknir enska sagnfræðingsins Geoffrey Parker
hafa varpað nýju ljósi á ýmsa þætti frelsisbaráttu Niðurlendinga.
Fleira mætti telja, en þetta veldur því að bókin byggist ekki á nýjum
rannsóknum og var því að vissu leyti orðin úrelt áður en hún kom út.
Lokaorð
Rit Jóns Thors Haraldssonar um tímabilið 1492-1648 hefur ýmsa góða
kosti og þá fyrst og fremst þann að vera lipurlega samið og læsilegt. Gall-
arnir eru fyrst og fremst þeir, að frásögnin er of persónubundin og ekki
gerð nægileg grein fyrir höfuðþáttum sögunnar á því tímabili, sem um er
fjallað, auk þess sem heimildir eru margar hverjar of gamlar og skýra ekki
frá niðurstöðum nýjustu rannsókna. Allt um það hlýtur þó að teljast
góður fengur að þessu riti, þó ekki sé nema fyrir þá sök að önnur rit um
þetta tímabil eru fá á íslensku og liggja ekki á glámbekk.
Jón Þ. Þór.