Saga - 1987, Blaðsíða 14
12
EINAR LAXNESS
vísindalegri hæfni kastað fyrir róða og gengið fram hjá Birni við skip-
un í þetta embætti, - þeim manninum, sem ótvírætt hafði mest og
bezt afköst sýnt á því sviði, sem um var að ræða. Þar sem hann fór
aldrei í launkofa með það, að hann væri róttækur sósíalisti að stjórn-
málaskoðun, var á honum níðzt með auðsærri rangsleitni. Það kom
einnig í ljós áður en á löngu leið, að mesta hæfileikamanninum hafði
verið hafnað, og þá hvorki spurt um framgang fræðigreinar hans né
velfarnað stúdenta í sagnfræði; fyrir það mátti sagnfræðin í háskólan-
um gjalda um árabil. Björn Þorsteinsson var ekki maður þeirrar gerð-
ar að sýta það, þó að stjórnvöld yrðu sér til skammar. Honum hlaut
að falla þungt hið innra með sér að vera beittur rangindum, en hið
ytra lét hann sér fátt urn finnast, ef á þetta var minnzt, og vék slíku
tali frá í hálfkæringi, glaður yfir því að fá að vera áfram í hópi sinna
ærslafengnu unglinga.
Áfram hélt Björn ótrauður á vísindabraut: Hann ritaði alllangar
greinar í Sögu árin 1964 og 1965, „Nokkur atriði úr norskri verzlunar-
sögu fyrir 1350" og „íslands- og Grænlandssiglingar Englendinga á
15. öld og fundur Norður-Ameríku". Árið 1965 gaf hann út bókina
Ævintýri Marcellusar Skálholtsbiskups, fróðlega og skemmtilega frásögn
um þennan þýzka ævintýramann á 15. öld, sem skipaður var biskup
í Skálholti, en komst aldrei til íslands. Árið 1966 var Björn tekinn til að
nýju við ritun þjóðveldissögunnar, en það ár kom út Ný íslandssaga,
þar sem hann tók ýmis atriði til endurskoðunar, bryddaði enn upp á
nýjungum í ritun þeirrar sögu; hann fellir inn í frásögnina alllangan
kafla um land og náttúru, tengir betur en áður atburði á íslandi við
evrópska sögu, ekki sízt þróunina í Noregi, svo og tengsl kirkju hér-
lendis við skipan hins alþjóðlega, kaþólska kirkjuvalds. Hlutverk
kirkjugoðanna varð í þessu riti og löngum síðar umhugsunar- og
rannsóknarefni, sem Björn fékkst við til æviloka. Því miður hélt hann
ekki áfram söguritun í þessum dúr um næstu tímabil, svo vel sem
hann fór af stað, enda hlóðust önnur verkefni á hann jafnhliða
kennslustörfum.
V
Haustið 1965 tók Björn að sér forsetastarf í Sögufélagi, þegar Guðni
Jónsson baðst þar lausnar. Frá upphafi var metnaður Björns fyrir
hönd Sögufélags mikill; hann vildi efla það með ráðum og dáð, auka