Saga - 1987, Blaðsíða 208
206 BERGSTEINN JÓNSSON
sjálfa sig frá of bráðum nafndauða eða hreinsa sig af rógburði og níði mátt-
ugra fjenda.
Frá síðustu mannsöldrum eru þó nokkur dæmi um höfunda sem hafa ver-
ið kallaðir - jafnvel einn og einn útvalinn að því er bezt verður séð - sem setzt
hafa við fótskör aldinna og spakra þula og fest á blað frásagnir af æviraunum
þeirra, sigrum eða lífsspeki.
Þrátt fyrir innrás vígfimra pennariddara á lendur ævisagna, fer því fjarri
að allir hafi horfið frá að færa sjálfir í letur eigin minningar. Er það vel, þó að
ekki sé því að leyna að oft hefur slíkum höfundum verið álasað fyrir sparða-
tíning, stirða frásagnargáfu eða brenglað mat á mönnum og málefnum.
Vissulega er til í því að þeir fjölyrði stundum um sitt af hverju, sem flestir
þykjast fullvel vita skil á. Vill þá gleymast hversu vel væri nú þegið, ef fornir
höfundar hefðu þó ekki væri nema stöku sinnum trúað blekinu og bókfellinu
fyrir ýmsu sem samtíð þeirra þekkti gerla, en síðari kynslóðum er að fullu úr
greipum gengið.
Ævisögur hafa í tímanna rás orðið af ýmsum gerðum. Er þá ekki einungis
átt við langar og stuttar, góðar eða lélegar, heldur ólíkar gerðir eftir því
hvernig að samantekt þeirra hefur verið staðið. Kemur þá m.a. til álita flokk-
un sem þessi:
- I fyrsta lagi sögur forystumanna á ýmsum sviðum, og spanna þær gjarn-
an samfelld tímabil eða þætti stjórnmála-, hag-, menningar- eða almennrar
sögu lands og þjóðar, landshluta eða heimshluta, helzt samdar af höfundum
sem eru sérfróðir um tímabilið eða málefnin sem mest koma við sögu. Þurfa
þeir þá að hafa átt greiðan aðgang að beztu fáanlegum heimildum sögunnar.
- í öðru lagi ævisögur sem stjórnmálamenn, athafnamenn eða aðrir
atkvæðamenn hafa skrifað að loknu aðalævistarfi sínu, oft til þess að veita
starfsorku sinni verðugt viðnám, þegar þeim hefur nauðugum, viljugum
verið stjakað af vettvangi lífsstarfsins.
- í þriðja lagi eru ævisögur sem að veruiegu leyti eru verk skrásetjara, þó
að látið sé í veðri vaka að söguhetjan ráði ferðinni.
- Loks er sú gerðin, sem mest gengi virðist hafa í svipinn, svokallaðar
samtalsbækur. Hafa með ólíkindum margir fengið köllun til þess háttar rit-
starfa og hlýtt henni. Er ekki nema eðlilegt að þeir valdi verkefnum sínum
misvel. Á hitt er og að líta, að á þennan hátt hefur margt lífsævintýrið komizt
á blað, sem að öðrum kosti hefði horfið með söguhetjunni á vit eyðingarinn-
ar miklu - og reyndar ekki ævinlega komið tilfinnanlega að sök.
Helzt mætti e.t.v. finna þessum síðast talda flokki það til foráttu, að fyrir
áleitni ötulla skrásetjara hafi annars aflögufærir og líklegir sjálfsævisöguhöf-
undar komizt hjá að gjalda torfalögin í þessum efnum.
Alþingismannatal 1845-1975 er hið nýjasta sinnar tegundar á þessari
stundu. Við lauslega athugun þess taldist mér, að úr 611 manna hópi, sem
tekið hafa sæti á alþingi umrætt tímabil, hafi 18 því sem næst eða alveg lokið
sjálfsævisögu; sex hafa dáið frá slíku verki í miðjum klíðum; um aðra sex
hafa verið ritaðar rækilegar ævisögur að þeim gengnum; loks eiga sjö hlut að
samtalsbókum, sem fjalla um ævi þeirra og störf að verulegu leyti.
Sjálfsagt er að minna á að um marga forystumenn á ýmsum sviðum hefur