Saga - 1987, Blaðsíða 278
276
RITFREGNIR
is 1944. Varla verður samt með sanni sagt, að Þórarinn sé hlutdrægur þannig
að til lýta sé; hann leitast þvert á móti við að vera sanngjarn og hógvær í
dómum um menn og málefni.
Bókin geymir ekki mikið af nýjum upplýsingum um stjórnmálasögu
íslendinga. Ýmislegt vakti þó athygli mína. Ég vil nefna þrjú dæmi:
1) Þórarinn Ieggur mikla áherslu á margvíslega samvinnu sjálfstæðis-
manna og kommúnista, síðar íslenskra sósíalista. Hið sama hafði raunar
Eysteinn Jónsson gert áður í ævisögu sinni, þar sem hann setur fram þá
kenningu, að þegar Sjálfstæðisflokknum hafi mistekist að lama Framsóknar-
Alþýðuflokksblokkina með „árásum" á Framsóknarflokkinn, hafi flokkurinn
einbeitt sér að baráttu gegn Alþýðuflokknum, og í því skyni haft mikið sam-
starf við „kommúnista" (sbr. Vilhjálmur Hjálmarsson: Eysteinn í eldlínu
stjórnmálanna. Vaka [útgáfuár vantar], einkum bls. 212-13 og 231-33). Þórar-
inn nefnir ýmis dæmi um þessa samvinnu máli sínu til stuðnings:
- Brottrekstur Jóns Baldvinssonar, formanns Alþýðuflokksins, úr Verka-
mannafélaginu Dagsbrún (bls. 22).
- Hlífardeilan í Hafnarfirði (bls. 41—42).
- Stjórnarmyndunartilraunir 1944 (bls. 137).
- Samvinna innan Dagsbrúnar á tímum nýsköpunarstjórnarinnar (bls. 149).
- Unnu saman í bæjarstjórn á Norðfirði (bls. 41).
- Áhugi sósíalista innan Alþýðubandalagsins á stjórnarsamvinnu við Sjálf-
stæðisflokkinn eftir kosningar 1956.
Til viðbótar við þessi dæmi Þórarins má síðan nefna meirihlutasamstarf
Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks í bæjarstjórn ísafjarðar 1946-51 og þa
samþykkt meirihluta þingflokks Sjálfstæðisflokksins eftir fall nýsköpunar-
stjórnarinnar að reyna stjórnarmyndun með Alþýðuflokki og Sósíalista-
flokki, en Sósíalistaflokknum einum ef Alþýðuflokkurinn neitaði (sbr. Matt-
hías Johannessen: Ólafur Thors. Ævi og störf. AB 1981. II. bindi, bls. 71).
Hér skal hvorki dæmt um eðli né mikilvægi samstarfs þeirra afla, sem hafa
ætíð talið sig vera höfuðandstæðinga í íslenskum stjórnmálum. Víst er að su
saga hefur verið þeim báðum nokkurt feimnismál, einkum samstarfið innan
verkalýðsfélaganna. Einungis skal varast að raða þeim fróðleiksmolum sem
vitað er um saman í eitt heljarmikið samsærispúsluspil, þar sem gert er ráð
fyrir, að sósíalistar og sjálfstæðismenn hafi bak við tjöldin gert sameiginlegar
áætlanir.
Frásögn Þórarins minnir okkur réttilega á, að samskipti stjórnmálaflokka
eru miklu flóknari en einföld uppröðun þeirra eftir hugmyndafræði gefur til
kynna. Hugmyndaskyldleiki flokka er engin ávísun á samstarf þeirra og ekki
útilokar djúpstæður hugmyndafræðilegur ágreiningur samvinnu flokka.
Þarna skipta kringumstæður miklu - t.d. valdastaða flokkanna á hverjum
tíma. Var t.d. Sjálfstæðisflokki og „kommúnistum" þrýst saman á sínum
tíma í verkalýðsfélögunum vegna samtengingar Alþýðuflokks og AIþýðu'
sambandsins og í landsmálapólitíkinni vegna sameiginlegrar stjórnarand-
stöðu? Valdabarátta getur skapað nálægð og fjandskap þvert á hina hátíð-
legu hugmyndafræði flokkanna. Þannig geta ólíkir flokkar staðið saman
gegn sameiginlegum andstæðingi. Þetta gilti ekki einvörðungu um aðra en