Saga - 2003, Blaðsíða 72
70
VIÐAR PÁLSSON
sögu.4'1 Sjálfur var Jón Loftsson sonur Þóru Magnúsdóttur,
laundóttur Magnúsar berfætts Noregskonungs. Jón lét yrkja fyrir
sig kvæðið Noregskonungatal og sýnir áhugi hans á konunglegum
viðfangsefnum ef til vill vilja til þess að halda á lofti konunglegri
göfgi Oddaverja.42 Afi Jóns, Sæmundur fróði Sigfússon, var ásamt
Ara fróða fyrstur manna til þess að rita um konungleg efni á Islandi
svo að getið sé.
Jón var ókrýndur konungur á Islandi á sinni tíð. Hann er aldrei
nefndur svo beinum orðum, enda óviðeigandi, en vísað til hans í
heimildum sem um konungborinn mann sé að ræða. Sturlunga er
ósínk á upphefðarorð til handa Jóni og segir af því hvernig hann
gerði um mikilvæg deilumál með góðum árangri. Hann er kallað-
ur „mestr höfðingi ok vinsælastr á Islandi" og annað eftir því. Páls
saga biskups tekur undir þetta og segir að Jóri sé „göfgastr höfðingi
á öllu Islandi." Sérstaklega er tekið fram um virðingu hans í Sturlu
sögu: „Váru þá sem mestar virðingar Jóns, ok var þangat skotit
öllum stórmálum, sem hann var."43 Virðing hans óx af ráð-
vendni hans og hæfileikum til þess að miðla málum og setja nið-
ur deilur með farsælum hætti. Það hefur einnig verið dregið fram
að í latínugerð Þorláks sögu er Jón kallaður „princeps patriæ" og
þykir það orðalag benda eindregið til þess að Oddaverjar hafi
verið tengdir konunglegu hlutverki í þann tíð.44
Það skipti máli að vera af slíkri ætt eða tengjast henni á mjög
sterkan hátt. Uppeldi Snorra í Odda hefur því ekki einungis veitt
Snorra höfðinglegt uppvaxtarumhverfi heldur og einnig virðingu,
táknrænt auðmagn. Það er líklegt að menn hafi verið gjarnari til
þess að hefja slíkan mann til höfðingja en ættlítinn.
41 Bjami Guðnason, Um Skjöldungasögu, bls. 273-283. - SkjQldunga saga, bls.
LII-LIV, LXVI-LXX.
42 Preben Meulengracht-Sarensen, Fortælling og ære, bls. 124-125. - Bjarni
Guðnason, Um Skjöldungasögu, bls. 157. - Armann Jakobsson, / leit aö kon-
ungi, bls. 295-296.
43 Sturlunga saga I, bls. 104-105, 108, 112-114, 192-194. - Biskupa sögur I, bls.
132.
44 Rannsóknir á sögu Páls biskups hafa leitt í ljós að svipuðu máli gegnir um
viðhorf til hans í heimildum sem til Jóns, og hefur höfðingskapur hans allt
eins þótt bera konungleg einkenni sem klerkleg. Þó hafa verið færð ágæt
rök fyrir því að Jón Loftsson hafi fremur leikið hlutverk biskups en kon-
ungs. Byskupa SQgur n, bls. 165. - Armann Jakobsson, I leit að konungi, bls.
297-299. - Helgi Þorláksson, „Jón Loftsson, góðviljamaður í Odda".