Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1940, Page 53
HULDA SKÁLDKONA
31
hreina sem hér og lausa við alla
truflandi aukahljóma úr ósamræmi
daglegs lífs.” Hann fór einnig hin-
um lofsamlegustu orðum um aðrar
þulur Huldu, er hann tók til athug-
unar, en þær höfðu verið prentaðar í
Sumargjöfinni.
Hér var því óneitanlega með af-
brigðum vel úr hlaði farið af ungu
skáldi, þó önnur kvæði Huldu frá
þeim árum jafnist eigi að listgildi,
eins og Þorsteinn tekur fram, við
þulurnar hennar, enda mun mega
telja þær fegursta og sérstæðasta
skerf hennar til íslenskra bókmenta,
þó að hún hafi síðan ort mörg list-
raen kvæði og fögur og ritað margt
með sömu einkennum í óbundnu
máli. Áður en lengra er farið skal
æfisaga skáldkonunnar sögð í höfuð-
dráttum.
II.
Hulda (Unnur Benediktsdóttir) er
fædd á Auðnum í Laxárdal í Suður-
Þingeyjarsýslu 6. ágúst 1881, dóttir
hjónanna þar, Benedikts Jónssonar
°g Guðnýjar Halldórsdóttur. Var
^enedikt, sem er nýlega látinn á tí-
ræðisaldri, sonur Jóns Jóakimssonar
óðalsbónda á Þverá í Laxárdal og
bonu hans Herdísar Ásmundsdóttur
frá Stóruvöllum í Bárðardal, er var
hin mesta hannyrða- og vefnaðar-
bona. Var Þverárheimilið víðkunn-
ugt fyrir reglusemi og híbýlaprýði,
°g dvöldu erlendir ferðamenn þar
lÖngum. Eignaðist Benedikt með
þeim hætti þegar í æsku ýmsa ágæta
0g trygga vini í þeirra hópi og
æfðist í að tala og rita erlend mál;
n°tfærði hann sér einnig þau tæki-
f^ri hið ágætasta. Lét Jón faðir
hans kenna honum og systkinum
hans dönsku; eigi lét Benedikt þar
þó staðar numið, en lærði að miklu
leyti af sjálfsdáðum bæði þýsku og
ensku og allmikið í frönsku, enda
var faðir hans vel efnum búinn og
fékst eigi um, þó Benedikt eyddi
tímanum í nám og fé til bókakaupa.
Guðný móðir Huldu ólst fyrstu ár
æfinnar upp hjá föðursystur sinni
Hildi Johnsen á Húsavík, en síðar
hjá afa sínum séra Jóni Jónssyni
á Grenjaðarstað í Þingeyjarsýslu,
fræðimanni miklum. Hún var náms-
hneigð mjög og fékk að læra tungu-
mál og fleira, sem sjaldgæft var að
stúlkur næmu í þá daga. Kyntust
þau Benedikt og Guðný á unga aldri,
enda var mikil vinátta með Grenjað-
arstaða og Þverárheimilum. Betri
bókakostur var þar en annarstaðar í
sýslunni og heimilishættir með meiri
menningarbrag en alment gerðist;
dvöldu ýmsir merkismenn þar einnig
langvistum. Millbank lávarður, dótt-
ursonur Byrons skálds, var t. d.
heilan vetur á Grenjaðarstað. En
sérstaklega hlýlega mintust foreldr-
ar Huldu Williams Morris, hins
enska skálds og umbótamanns og
fslandsvinar.
Benedikt og Guðný reistu bú að
Auðnum næsta bæ við Þverá; eign-
uðust þau fimm dætur og er Hulda
næst yngst af þeim. Virðist skáld-
gáfan vera harla rík í ættinni, því að
í hinu nýútkomna safni þingeyskra
Ijóða (Þingeysk ijóð. Eftir 50 höf-
unda, 1940) eiga tvær systur Huldu,
Aðalbjörg og Bergljót, falleg kvæði.
En “fjórðungi bregður til fósturs”
má með sanni segja um þær systur,
því að bæði áttu þær til bókmenta-
hneigðra og listrænna að telja og
ólust upp í menningarríku umhverfi,