Helgafell - 01.12.1955, Qupperneq 88
Símon Jóh. Ágústsson:
List og eftirlíking
Viðfangsefni fagurfræði er öll fegurðarreynsla manna í hvaða mynd, sem
hún birtist. Þessi skýrgreining er víð og er það gert viljandi. Hún tekur jafnt
til náttúrufegurðar sem listfegurðar, en margir fagurfræðingar takmarka íhug-
un sína við listfegurð. Reynslu manna ber saman um að greina að tvo heima
fegurðar: listfegurð og náttúrufegurð. Vér tölum ekki einungis um fagurt ljóð,
fagurt Iag eða fagurt málverk, heldur tölum vér og um fagurt sólarlag, fag-
urt landslag, falleg dýr og jurtir. Það er því staðreynd, að bæði tilbúnir hlutir,
það er hlutir, sem maðurinn hefur skapað með hug og hendi, og náttúran sjálf,
þ. e. ýmsir hlutir, sem skapazt hafa án tilverknaðar mannanna, eru þess megn-
ugir að vekja fegurðarkennd vora. Náttúrufegurð hrærir ekki síður hjörtu vor
en listfegurð. Þessu neita þeir raunar ekki, sem binda fagurfræðina eingöngu
við list. En þeir halda því fram, að listfegurð sé upprunalegri, fegurð hafi þá
fyrst orðið til, er menn fóru að skapa fagra hluti. En hér fer sem oftar, að
skýringar á uppruna einhverra eðlisþátta mannssálarinnar eru harla óvissar.
Ber því að líta á þær sem tilgátur einar, því að vant er að sjá, hvernig þær
verða sannprófaðar. Um þetta veit enginn með vissu. Það er engu síður senni-
legt eða a. m. k. mögulegt, að fjarlægir forfeður vorir hafi hrifizt af fegurð
ýmissa náttúrlegra hluta, áður en þeir gátu tjáð hug sinn í sköpun listaverka.
Vér erum komin þarna að gömlu spurningunni: um eggið og hænuna, hvort
sé upprunalegra, hvort hafi orðið til fyrst. Alveg eins og eggið og hænan eru
jafngömul í náttúrufræðilegum skilningi, er sennilegt að hvorttveggja fegurðin
sé jafnupprunaleg. Frá því maðurinn skynjaði fegurð í náttúrlegum hlutum,
hefur verið vakandi löngun með honum til að tjá fegurð, skapa fagra hluti.
Vér verðum því að láta liggja milli hluta, hvor sé upprunalegri, náttúrufegurð-
in eða listfegurðin, og eins hitt, hvort vér sjáum náttúruna með gleraugum
listarinnar eða listina með gleraugum náttúrunnar. Gagnkvæm áhrif virðast
eiga sér hér stað.
Varla er til sú tegund hluta, sem vér getum ekki séð í fegurð, eða rang-
hverfu hennar, ljótleikann: Mannleg. ásýnd með formum sínum og svipbrigð-
um, landslag í hinum ólíkustu myndum, alstirndur himinn með dansandi norð-