Tímarit Máls og menningar - 01.10.1961, Blaðsíða 85
ERLEND TÍMARIT
verk fyrir það að þar eru leidd saman þjóð,
sem er að berjast fyrir virðingu sinni og
arftaki þeirra gömlu Ameríkana, sem ein-
mitt gerðu ekki annað en að berjast fyrir
virðingunni og tókst að frelsa sjálfa sig.
Þessi stílfærði harmleikur um aðskilnað
elskendanna er táknrænn um ósigur þeirrar
vonar, sem er sameign allra manna. Okkur
er líka kunnugt um hlutverk Hemingways í
frelsun Parísar og minnumst nokkurra mjög
hugþekkra yfirlýsinga hans síðan.
Samt hefur Hemingway sem rithöfundur
stirðnað í þóttafullri en geldri afstöðu eftir
því sem hann ræktaði sérdeilis einstaklings-
hygginn persónuleika sinn. Seinustu ástir
gamla hershöfðingjans í Yfir ána og inní
skóginn minna okkur á form hinnar dauðu
skáldsögu. Og gerviklassísisminn í Gamli
maSurinn og hafiS er ekki alveg laus við að
valda mér nokkrum ugg þrátt fyrir yfir-
burðasnilli í veiðilýsingunum. Þar finn ég
lieldur mikinn skyldleika við verkin sem
formalistagagnrýnin þarfnast til að renna
stoðum undir textaskýringar sínar. Stóíkar-
inn gamli, vitaskuld er það Hemingway
sjálfur, jafnframt því að vera hinn nafn-
lausi maSur, óumbreytanlegur eftir þörfum,
örlög hans sem hrikalegust til þess hann
verði ótímabundinn; og svo er ljóðræna
þessarar frummyndar samt fóðruð með
þjóðsögum frá Ameríku á tímum frum-
byggjanna, sem voru Fenimore Cooper svo
hjartfólgnir og stunduðu veiðar og fiskirí af
nauðsyn en ekki til dægrastyttingar. Loks
verður svo einskonar einkasamtal böðuls og
fórnardýrs milli sverðfisksins og söguhetj-
unnar; átökin sem svo verða, þar sem mað-
urinn mætir höfuðskepnunum, dæmast gam-
alkunn og fylla óafvitandi hóp sem mikið
hefur verið rætt um. í stuttu máli: hand-
bragð meistarans hneigist til innantómrar
snilli.
Að ódæmdum liandritunum, sem við, að
sögn, fáum að sjá birt síðar, verða verk
hans, nýkrýnd Nóbelsverðlaunum, athyglis-
verð fyrir kraft sinn, fyrir snilldarlega gerð
og vissa tign, þó þau séu á pörtum nokkuð
mikið flúruð. Þau eru með því mikilvæg-
asta frá þessari kynslóð aldarinnar, sem ný-
lega er orðin sextug.
Hemingway er þegar orðinn að þjóðsögu,
en sannur mikilleiki hans kemur vissulega
ekki af þeim afskræmingum, sem auglýs-
ingastarfsemin hefur, viljandi eða ekki,
gert: hann er fólginn í því að honum hefur
tekizt að leggja í sögur sínar, sem stundum
eru býsna skyldar gömlu kvikmyndunum,
hugsanir nútíma Bandaríkjamanns um ör-
lögin, sem hann stöku sinnum horfist í augu
við til að flýja þau á öðrum stundum. Ógeð
hermannsins frá 1917 er satt, eins og sjálf-
boðaliðinn sem slæst í hóp spönsku lýðveld-
issinnanna, eins og lýðræðissinninn, sem
skynjar þær efnahagslegu ástæður, sem
ráða vesælum kjörum handverksmannsins.
En hvað sem Hemingway er stórkostleg-
ur meistari hins óbrotna talmáls hefur
hann þó, af ástæðum sem kannske eru per-
sónulegar en eiga þó rætur í bandarísku
þjóðfélagi dagsins í dag, stundum tekið yf-
irborðslega og óþægilega afstöðu: afstaða
hins fífldjarfa, unga íþróttamanns í byrj-
endaverkum hans er þó áreiðanlega sannari
spegilmynd þess manns sem hann var og
nær hans innra eðli en ólympísk hegðun
hans síðustu árin. Til þess bendir dauði
hans að minnsta kosti. Verum þess þó viss,
ef enn bætast við verk til að auðga þann
Hemingway sem við þekkjum, þá munu þau
þrátt fyrir allt villandi hik í hugsun hans,
lýsa hans aðalsmerki, að þekkja það sem
göfugt er.
Cyrille Arnavon
Ur Europe, september.
Þ. Þ. þýddi.
323