Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Síða 86
Tímarit Má/s og menningar
gat hún ekki hugsað sér að halda áfram að vinna, í það minnsta vildi hún
fá nokkurra daga frí til að hugsa málið.
Þá hvíslaði yfirlæknirinn að yfirmanni allrar heilsugæslu: — Látum
hana fara. Hún kemur aftur innan viku. Hún getur ekki lifað án þess að
vera góð.
Og Una fór heim.
En yfirlækninum skjátlaðist að því leyti að Una kom ekki aftur. Hitt
reyndist samt rétt: Una gat ekki hætt að vera góð.
Þegar hún hafði verið heima í fimm daga og reynt árangurslaust að
finna einhverskonar vanlíðan hjá manni sínum og börnum, lagðist hún í
rúmið og grét. Ef eitthvert þeirra sýnir mér meðaumkun og grætur með
mér, hugsaði hún, þá get ég kannski komið því þannig fyrir að ég gráti
ögn minna en þau og verði þannig í aðstöðu til að hugga og vera góð.
En ekkert þeirra sýndi henni minnstu meðaumkun, hvaðþá þau grétu
með henni. Sonurinn sagði aðeins: — Þú átt bágt, mamma. — Svo var
hann rokinn út í fótbolta.
Já ég á bágt, sagði Una við sjálfa sig aftur og aftur. Og fyrren varði var
hún farin að beina gæsku sinni að sjálfri sér.
— Þú ert veik, sagði góða Una við sjúku Unu.
— Eg lifi þetta samt af, sagði sjúka Una. Ég skal.
— Hafðu engar áhyggjur, sagði góða Una og strauk sjúku Unu niður
kinnina. Ef þú ferð gætilega er ekki að vita nema þú lifir næstu jól,
veslings Una mín.
Um kvöldið var hún komin með hita.
— Eg er ykkur til byrði, sagði hún við fjölskylduna daginn eftir.
— Hvaða vitleysa, sagði maður hennar og reyndi að vera sannfærandi.
Þú ert okkur til gleði einsog ævinlega.
— Ykkar vegna vona ég að þetta standi ekki lengi, sagði Una.
Eftir tvo daga var hún orðin náföl og komin með svo háan hita að
börnin þorðu ekki annað en kalla á gamla heimilislækninn. Hann skoðaði
hana vandlega en gat ekki fundið að það væri neitt sérstakt að henni. —
Ef þetta er ekki skæður vírus veit ég ekkert lengur í minn haus, sagði
hann að lokum og ætlaði að skrifa uppá lyfseðil.
— Alveg óþarfi, sagði Una. Mér líður vel.
340