Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Page 146
Tímarit Máls og menningar
verkum. Margir af tryggustu og bestu samstarfsmönnum hans, leikarar, leik-
stjórar og leikmyndateiknarar, treystu sér ekki til að starfa lengur við þessar
aðstæður og sneru vestur fyrir tjald. Þessum mönnum, sem flestir voru sann-
færðir sósíalistar, ofbauð einnig að horfa upp á stéttaskiptinguna í rikinu og
höfðu ekki áhuga á að lifa í vellystingum á meðan alþýða manna svalt. Blöðin
gátu ekki um leiksýningar flokksins fyrr en þær höfðu gengið mánuðum saman
og i marsmánuði ’53 viðurkennir Brecht að þær virðist ekki vekja neinn áhuga
lengur. Svo virðist sem það hafi einkum verið menntamenn frá Vestur-Berlín
sem tíðkuöu komur sínar á sýningar Berliner Ensemble en austur-þýskur al-
menningur nær engan gaum gefið að þeim. Um svipað leyti var haldin í
Austur-Berlín ráðstefna um kenningar Stanislavskýs, sem Brecht hafði fyrr á
árum brennimerkt sem æðstaprest hins hættulega innlifunarleikhúss. Leikurum
og leikstjórum var stefnt þangað frá öllu Austur-Þýskalandi og í marga daga var
prédikað yfir þeim að aðferðir Stanislavskýs væru eina rétta leiðin til sósíalísks
raunsæis í leikhúsinu. Gagnrýnendur Neues Deutschland fjölluðu af áberandi
velþóknun um þetta fyrirtæki og notuðu tækifærið til að saka Brecht um
formalisma og brot gegn grundvallarkröfum sósíalrealismans. í vestrænum
blöðum voru menn nú teknir að spá því að endalok leikflokksins væru ekki
langt undan. En um sumarið skipaðist veður í lofti.
Sautjánda júní 1953gerði alþýðufólk í Austur-Berlín uppreisn. Þessi uppreisn
var brotin á bak aftur með sovésku hervaldi og um tima var útlit fyrir að hún
mundi hleypa af stað nýrri heimsstyrjöld. Tildrög þessara atburða voru þau að
efnahagsástand landsins hafði lengi verið mjög slæmt og verkalýðurinn því
verið blóðmjólkaður til að auka þjóðarframleiðslu. Dauði Stalíns í marsmánuði
hafði vakið vonir um aukið frjálsræði, en slíkar breytingar létu standa á sér og
um miðsumar var þolinmæði almennings á þrotum. Austurþýsk stjórnvöld
réttlættu siðar gerðir sínar með því að vestrænir undirróðursmenn og gamlir
nasistar hefðu reynt að notfæra sér óánægju fólksins til að gera gagnbyltingu. En
þau urðu að horfast í augu við það að uppreisnin sautjánda júní hafði afhjúpað
þá fáránlegu þverstæðu að í þessu riki verkalýðsins var verkalýðurinn sjálfur jafn
valdalaus og undir kapítalismanum. Hún sýndi að hann hafði engan hug á að
færa fórnir fyrir þjóðskipulag sem hafði verið þröngvað upp á hann af erlendu
stórveldi. Þetta lýðveldi alþýðunnar grundvallaðist á kúgun alþýðunnar og
öllum blekkingarmeðulum hafði verið beitt til að fela þessa staðreynd. í þessu
ríki var sósíalisminn, þjóðfélag jafnréttis og bræðralags, að sjálfsögðu ekkert
fjarlægt framtíðarmarkmið, hann var endanlega kominn og nú varð að verja
hann óvinum hans allt um kring. Sjálfstæð og gagnrýnin hugsun voru því ekki
400