Tímarit Máls og menningar - 01.11.1980, Side 147
Berto/l Brecht og Berliner Ensemble
beinlínis þær dyggðir sem valdhafarnir óskuðu eftir að þegnar þeirra ræktuðu
með sér.
Atburðirnir sautjánda júní breyttu ekki þjóðfélagsgerðinni, en þeir komu af
stað umróti innan stjórnkerfisins og það tókst Brecht að notfæra sér málum
sínum til framdráttar. Fljótlega eftir uppreisnina lýsti hann opinberlega yfir
stuðningi við kommúnistaflokkinn og vakti sú yfirlýsing mikla furðu og reiði
meðal aðdáenda skáldsins vestantjalds, sem túlkuðu hana þannig að hann væri
nú orðinn algert handbendi þessarar kúgunarstjórnar. Sjálfur virðist Brecht hafa
vonað að þessir atburðir yrðu til þess að flokkurinn endurskoðaði stefnu sína og
reyndi að brúa bilið milli sín og hinna vinnandi stétta. Hann hvatti embættis-
menn og leiðtoga til að hlýða á réttmæta gagnrýni og óánægju almennings um
leið og hann gerði harða hríð að menningarpólitík flokksins. í löngu bréfi, sem
birtist í Neues Deutschland í ágústmánuði, varði hann rétt listamanna til að
finna sér eigin form og vítti tilhneigingu embættismanna til að hefja lélegan
listsmekk alþýðunnar á stall og skipa listamönnum að taka mið af honum.
Ymsir virtir menntamenn tóku undir orð Brechts og að lokum lét stjórnin
undan. Listanefnd ríkisins, sem mest hafði hatast við leikflokk Brechts, var lögð
niðurog umsjón menningarmála falin nýstofnuðu menntamálaráðuneyti undir
stjórn skáldsins Johannesar R. Becher, gamals kunningja Brechts. Vorið 1954 gat
svo Berliner Ensemble loksins flutt inn í eigið húsnæði í leikhúsinu gamla við
Schiffbauerdamm. Staða þess var nú öll orðin tryggari en áður, því hafði
hlotnast alþjóðleg viðurkenning og jafnvei í Sovétríkjunum gátu menn leyft sér
að sýna því nokkurn áhuga. Það sem eftir var gat því Brecht sinnt starfi sínu við
leikhúsið í næði og síðustu sýningar hans hafa greinilega verið jafn meistara-
legar og þær fyrri. En nú var hann þrotinn að kröftum, heilsu hans hrakaði
óðfluga og hann lést í ágústmánuði 1956.
I upphafi fyrri greinar sagði ég frá nokkrum sýningum hjá Berli'ner Ensemble
síðastliðið vor. Ég sagði þar að mér hefði ekki þótt þær geta haft þau áhrif á
áhorfendur sem Brecht talar um í kenningum sínum. Menn kunna nú að spyrja,
hvort sýningar hans sjálfs hafi verið trúrri hugmyndinni um hið vísindalega
leikhús, sem hann vildi kalla epískt. Lá ekki beint við að hann notaði leikhús sitt
til að sýna mönnum og sanna ágæti kenninga sinna og framfylgja í raun þeirri
uppreisn gegn hinu dramatíska leikhúsi sem hann hafði boðað á pappírnum? En
Brecht var nógu glöggskyggn til að láta slík mistök ekki henda sig. Hafi honum
ekki verið það ljóst frá upphafi, viðurkenndi hann það síðar meir að leikhús-
kenningar hans væru óframkvæmanlegar við ríkjandi aðstæður. Smám saman
TMM 26
401