Tímarit Máls og menningar - 01.09.1989, Page 45
Þorsteinn Gylfason
Hundrað og eitt ár
I
Eg held ég hafi fyrst fengið sendibréf um dagana þegar ég var á fimmta ári.
Það hljóðar svona:
Hringbraut 145, 21. febrúar 1947.
Háæruverðugi yngispiltur, Þorsteinn Gylfason!
Hér í húsinu er lítil og anzi lagleg stúlka á fjórða ári. Við Manga köllum hana
Helgu pissidúkku, af því að hún pissaði ósköpin öll, þegar hún var yngri.
Við þekkjum líka fjögra ára gamlan strák, sem var alls staðar pissandi, þeg-
ar hann var lítill. Móðurfaðir hans og ég erum bræður. Þennan strák kölluð-
um við Manga Pissikoff. Einu sinni var Pissikoff austur á Hala í Suðursveit
hjá afa sínum. Þá var ég þar líka. Þá var Pissikoff stundum að herma eftir
hundinum og sagði voff-voff-voff og boff-boff-boff. Þá orti ég um Pissikoff
þessa vísu:
Prúður þykir mér Pissikoff,
prúðastur af yngissveinum.
Þegar hann segir: voff-voff-voff,
vænstur finnst mér Pissikoff.
Þegar hann rekur upp boff-boff-boff,
bergmálar í hjartans leynum:
Prúður þykir mér Pissikoff,
prúðastur af yngissveinum.
Syngist undir laginu „Fífilbrekka gróin grund“ eða „Blessuð sértu sveitin
mín“!
Þökk fyrir síðast! Manga biður að heilsa.
Kær kveðja.
Þórbergur Þórðarson.
Upphaflega var ég beðinn um að fjalla á þessari málstefnu um stíl Þórbergs
Þórðarsonar. Eg held ég gæti talað allan tímann sem mér er ætlaður um
þetta bréf: um stílinn á því, og það sem þessi stíll segir okkur um þann sem
bréfið skrifaði. Er hægt að hugsa sér öllu betur stílaða setningu en þessa:
307