Tímarit Máls og menningar - 01.09.1989, Blaðsíða 61
Þórbergur og skáldsagan
ekki að skrifa skáldsögu. I skáldsögu má aldrei nefna mánaðardag.“(Sama,
bls. 307)
Og enn:
„Þetta var hálftíma gangur fyrir fullorðið fólk. Sobbeggi afi má nefna hálf-
tíma gang af því að hann er ekki að skrifa skáldsögu . . .“(Sama, bls. 318)
Hitt er svo annað mál að auðvitað er Sálmurinn um blómið bullandi skáld-
saga. Niðurskipan, útsjónarsemi og stílbrögð - allt er þetta úr vopnabúri
skáldsögunnar. Aðferð Þórbergs dregur dám af kúnst töframannsins sem
beinir athygli fórnarlamba sinna út í bláinn til að geta betur framið list sína.
Þótt sagan byggi á fólki sem átti sér nöfn og heimilisföng í lifanda lífi þá
hagræðir Þórbergur efnisatriðum á þann veg að frásögnin nái mesta hugs-
anlega áhrifamætti - auk þess sem kappnóg er af algerlega ímyndaðri at-
burðarás, dæmi um það er t.d. hin sorgarfulla ástarsaga um kálfinn og
lambið sem endaði með aflífun beggja.
Sálmurinn um blómið er aftur á móti skáldsaga sem deilir á formið og
dustar af því rykið. Sálmurinn er á sinn hátt „skáldsaga sem bendir á sjálfa
sig“, eins og nú hefur verið nýjasta nýtt um nokkurt skeið. Lesandanum er
kippt inn í sjálft ritferlið, skáldskapurinn gerist fyrir opnum tjöldum og
sýnist fyrir bragðið vera veruleiki.
Sálmurinn er þannig í beinu framhaldi af formþróun Þórbergs sem leið
ekki undir lok með Bréfi til Láru heldur var snar þáttur af viðbrögðum
hans við tilverunni alla tíð. Sálmurinn er nýr stíláfangi á leið Þórbergs til
meiri einfaldleika, markmiðið er að brjóta endanlega af sér viðjar storknaðs
bókmáls.
Og þessarar þróunar sér enn frekar stað í verki því sem Þórbergur hélt
áfram að Sálminum loknum: Suðursveitarbókunum. Steinarnir tala, Um
lönd og lýði, Rökkuróperan og verk sem Þórbergur lauk aldrei við og birt-
ist ekki fyrr en árið 1975 í heildarverkinu og þá undir nafninu Fjórða bók.
Þrjár fyrstnefndu bækurnar komu út á árunum 1956-58 - Þórbergur stóð
þá á sjötugu og þótt hann tæki áratug síðar upp pennann til þess að færa í
letur sögu Einars ríka, þá má telja I Suðursveit svanasöng hans og kórónu
æfiverksins.
Mér er til efs að á sjötta áratugnum hafi verið skrifaður öllu módernísk-
ari texti á Islandi en víða í Suðursveitarbókunum. Mönnum hætti hins veg-
ar til að sjást yfir það af því að sjálft yrkisefnið var tengt afturhaldi og
stöðnun: þjóðháttalýsing og þjóðfræðaefni úr íslenskri sveit á ofanverðri
19. öld.
En efnistökin leiftra af frumleika. Eg skal bara nefna sem dæmi hinn súr-
323