Tímarit Máls og menningar - 01.09.1989, Side 47
Hundrað og eitt ár
Þá var ég þar líka.“ Og ég spyr: er hægt að segja betur frá? Er sagt betur frá
í Njálu?
Þetta er allt til marks um stíl á bréfinu. En stíll er ekkert eitt, sagði ég.
Það er raunar þegar kominn annar stíll við sögu í þessu spjalli mínu. Eg
spurði áðan um setninguna um litlu stúlkuna á Hringbraut 145: „Og er
hægt að hugsa sér meiri stíl, agaðri og fágaðri mannasiði, en að skrifa þessa
setningu í bréf til fjögurra ára drengs, ári eldri en þessi litla og laglega
stúlka, og titla hann í bréfinu ‘háæruverðugan yngispilt’?" Það getur sem
sagt verið stíll á manni ekki síður en stíll á bréfi eða kvæði. En má ekki vera
að þó að stíll sé ekkert eitt þá sé þetta tvennt eitt og sami stíllinn? Hugum
aðeins að því.
Frægasta setning um stíl er auðvitað frönsk: „Le style est l’homme
méme.“ Það útleggst: „Stíllinn er maðurinn sjálfur.“ Þetta sagði náttúru-
fræðingurinn George Louis Leclerc de Buffon, sem uppi var átjándu öld, í
ræðu sinni þegar hann var tekinn inn í konunglega franska lærdómslistafé-
lagið hinn 25ta ágúst 1753. Frakkar fara oftast svo með þessa setningu að
þeir stytta hana og segja „Le style, c’est l’homme." - “Stíll, það er maður“
eða „Stíllinn, það er maðurinn." (Hvort er betri stíll, að hafa ákveðna
greininn eða ekki?) En menn mega ekki halda að þetta hafi verið frumlegt
hjá de Buffon frekar en frönsk menning yfirleitt. Rómverjar áttu sér svipað
máltæki og eignuðu það heilögum Longínusi sem blómstraði á fyrri híuta
fyrstu aldar okkar tímatals. Það hljóðaði svo: „Stylus virum arguit" sem
þýðir „Stíllinn sannar manninn“.
Eg held ég geti sagt um þetta litla sendibréf, þetta litla listaverk, að það
sé Þórbergur Þórðarson sjálfur: stíllinn sannar manninn. Bréfið sannar
snillinginn. Snillingurinn var ekki bara ritsnillingur heldur líka snillingur í
að umgangast lítil börn. Og þetta var ein og sama snilldin. Það er mun
fleira til marks um snilld Þórbergs í að umgangast börn. Margt af því
stendur skrifað í Viðfjarðarundrunum og Sálminum um blómið. Eitt stend-
ur þar þó ekki. Eg lærði af Þórbergi bezta leik sem leikinn verður við barn
eins og ég hef sannreynt þúsund og einu sinni. Þennan leik hygg ég hann
hafi leikið fyrst við Þórhall Vilmundarson móðurbróður minn. I leiknum
þykist fullorðinn maður vera blindur og lætur barnið leiða sig. Barnið ber
þá ábyrgð á hverju spori sem stigið er, og verður líka að lýsa öllu sem fyrir
augu ber svo að blindinginn fari ekki á mis við neitt sem gerist í kringum
hann.
Þeir gömlu höfðu meira að segja um stíl en að stíll væri maður sjálfur.
Ein af stökum Friedrichs Schiller, eins höfuðskálds Þjóðverja, er á þessa
leið:
309