Tímarit Máls og menningar - 01.03.1990, Blaðsíða 68
nánast á sama stað og þau höfðu lagt upp frá. Varla gæti hún leikið það eftir
þótt hún ætti að þekkja vatnið ekki síður en hann. Kannski var hún áttavillt
eða svona vitlaus.
Nú var hann búin að fá einn sæmilega stóran og fáeina litla. Hann stóð upp
til þess að kasta af sér vatni. Henni fannst það alltaf einhvem veginn ósæmi-
legt og varð ævinlega jafnvandræðaleg. Hann hafði gaman af. Hann lét bátinn
reka og meig út fyrir borðstokkinn. Hún horfði á kvöldroðann og fjöllin.
Horfði í óljósri spennu á eftir fugli sem flaug. Horfði á vængina sem börðust
ótt og títt og sá hann hverfa í sjónum í suðurátt. Gleymdi andartak þessari
brothættu skel og manninum sem einu sinni enn sinnti þörfum sínum þótt það
hefði trúlega getað beðið þar til þau kæmu í land.
Skyndilega kipptist hún harkalega til og greip um þóftuna. Báturinn hafði
rekist á trjástofn og sér til óumræðilegrar skelfingar sá hún mann sinn baða
út öllum öngum, missa jafnvægið og falla útbyrðis. Hún stirðnaði upp. Engin
hugsun kom upp í hugann, engin viðbrögð, hún starði einungis á höfuð hans
sem kom upp úr vatninu og sá hendur hans fálma í örvæntingu, en hún gat
hvorki hreyft legg né lið. Skynjaði eins og í þoku hvernig bátinn rak burt,
hægt, en burt, og hún starði og starði. Sá hvemig hárið klíndist við andlit hans
og hvernig hann reyndi að strjúka það burt frá augunum, heyrði, gegnum þessa
undarlegu þoku, hróp hans, en engin orðaskil. Bátinn rak lengra burt og hann
rakst á tré og hún var nærri dottin og hún rankaði við sér og stjakaði bátnum
frá með hendinni. Hún fikraði sig aftur í bátinn og settist við vélina. Með
titrandi höndum tók hún utan um spottann og togaði í.
Hún var ein í bátnum. Hvít trén umluktu hana, stóðu eins og þögulir verðir
allt um kring. Litlir hringir mynduðust á vatnsfletinum. Það var farið að rigna.
66
TMM 1990:1