Tímarit Máls og menningar - 01.03.1990, Blaðsíða 98
texti“ kvæða, sem varðveittist í minni
manna, fyrst minni skáldsins sjálfs og síðan
þeirra sem töldu ómaksins vert að læra verk
þess. Þetta hvort tveggja afsannar þá
ströngu tvískiptingu milli „munnlegrar
menningar“ og „ritmenningar“ sem er
kjarninn í kenningu Parrys og Lords, svo og
skilgreiningu „munnlegu menningarinnar“
og alhæfingar og reglur sem á henni eru
byggðar. Loks sanna dróttkvæðin þá kenn-
ingu, sem Gísli taldi svo fáránlega, að það
eitt væri fullgild rök fyrir því að beita
„munnlegu kenningunni" á eddukvæðin —
sem sé að á Norðurlöndum hafi ríkt sér-
stakar aðstæður hvað snerti bókmennta-
sköpun og -varðveislu. Um þetta verður
naumast deilt, enda viðurkennir Gísli það í
reynd þegar hann reynir að afgreiða drótt-
kvæðin með því að tala um „ólík lögmál“ í
sambandi við þau. En þá er hann líka kom-
inn í mótsögn við sínar eigin forsendur því
„munnlega kenningin" byggist á því að æf-
inlega gildi sömu lögmál í „munnlegri
menningu“ og á þeim grundvelli hvílir rök-
semdafærsla hans sjálfs.
En með þessu er þó ekki nema hálfur
sannleikurinn sagður. Hingað og þangað
um heimsbyggðina hefur skáldskapur á
ýmsum tímum haft harla mismunandi hlut-
verk, skáld hafa beitt margvíslegum aðferð-
um við að yrkja og síðan til að koma
kvæðum sínum á framfæri, varðveisla bók-
mennta hefur verið með ýmsum hætti og
viðhorfin til þeirra fjölskrúðug: það eru
með öðrum orðum og hafa verið víða ríkj-
andi alveg „sérstakar aðstæður“. Með tví-
skiptingu sinni í „munnlega menningu“ og
„ritmenningu“ — sem mig grunar að sé
einungis ný myndbreyting hinnar gamal-
kunnu og gersamlega úreltu skiptingar í
„frumstæðar þjóðir“ og „menningarþjóðir“
— svo og með alhæfingum sínum um hvora
„menninguna“ um sig leiðir „munnlega
kenningin" ekki til annars en fela þessa
margbreytni, byrgja hana inni í tveimur
heimasmíðuðum básum, ýkja og einhæfa
muninn á því sem sett er á mismunandi bása
en þurrka út muninn á því sem lendir sömu
megin. Það ætti þó að vera meira spennandi
fyrir fræðimenn að horfa fordómalaust á
þessa margbreytni, rannsaka „sérstakar að-
stæður" á einhverjum ákveðnum stað og
tíma og kannske bera saman heldur en beita
á vélrænan hátt einhverri fyrirframgerðri
patentkenningu.
Nú hefur Gísli vitanlega fullan rétt til að
halda því fram, að „munnleg kenning" Parr-
ys og Lords geti varpað ljósi á eddukvæðin,
en hann getur ekki gengið út frá grundvall-
arsetningum hennar sem traustum sannind-
um og því hvílir sönnunarskyldan endilöng
á honum sjálfum: hann verður sem sé að
færa rök að því að eddukvæðin hafi orðið
til á sama hátt og Parry og Lord telja að
suður-slafnesku kvæðin séu ort. Þetta gerir
hann ekki, enda kynni það að vefjast fyrir
fleirum. Það er hins vegar nokkuð auðvelt
að benda á ýmis rök sem mæla sterklega
gegn því að „munnlega kenningin“ geti átt
við um eddukvæðin. Menn eru sennilega
sammála um að það sé því erfiðara fyrir
skáld að spinna upp kvæði í beinum flutn-
ingi sem þau þurfa að gæta fleiri atriða í
einu og hafa minna svigrúm. Hvað sem
annars má segja um skýringar Parrys og
Lords á slafnesku kvæðamennskunni, virð-
ist ljóðlist á þessum slóðum vera mjög ein-
föld og reglumar hentugar fyrir einhvers
konar impróvisasjón, ef svo ber undir, eða
frjálsra tilbrigða í flutningi. Kvæðamaður-
inn þarf ekki að gæta annars en þess að hver
ljóðlína hafi rétt hljóðfall, sem sé ákveðna
lengd og braghvíld á vissum stað, þær eru
nógu langar (tíu atkvæði) til að gefa honum
sæmilegt svigrúm, og við mótun þeirra get-
ur hann stutt sig við fasta lagboða — því
hljóðfallið er alltaf eins og síendurtekið —
og sitt eigið undirspil. Allt öðru máli gegnir
um eddukvæðin: í þeirri bókmenntagrein
þurfti skáldið bæði að gæta lengdar og
96
TMM 1990:1