Gripla - 20.12.2010, Blaðsíða 170
GRIPLA170
Þegar ég fór að rýna í þá þrjá vísuhelminga sem þar er vitnað til eftir
vígamanninn og Þverárbóndann Glúm og bera textana saman við aðrar
vísur hans efldist forvitnin. Hér fer afrakstur þess.
Skáldið og efniviðurinn
Seint mundi Glúmur Eyjólfsson, Víga-Glúmur, verða talinn með helstu
skáldum Íslendinga fyrr né síðar. Haldið er að hann hafi verið á dögum um
það bil 928–1005 (sbr. Jónas Kristjánsson 1956, xlvii), en bæði eru fæðing-
ar- og dánarár hans óviss. Snemma virðist hafa verið skrifuð af honum saga,
og er fróðlegt að sjá hvernig hugmyndir nokkurra fræðimanna um aldur
hennar birtast: Sigurður Nordal setti Glúmu í aldursgreiningu sinni meðal
sagna í „öðrum flokki,“ en það var sá sem hann taldi að hefði verið skrifaður
1230–1280, og raunar áleit hann Glúmu vera elstu söguna af Norð austur-
landi (1953, 244 og 1968, 127–129). Jónas Kristjánsson tímasetti hana í
útgáfu sinni á svipuðum slóðum, 1220–1250, en hafði þó á allan fyrirvara
(1956, liii). Vésteinn Ólason flokkaði Glúmu með „fornlegum sögum“, sem
komið hefðu til 1200–1280 (1993, 42–44 og 104–106) en þó m. a. með
þeim orðum að hún sé „ein þeirra sem virðast standa mjög nærri munnlegri
geymd“ (1993, 106). Síðastur til tímasetningar og kannski einna djarfastur
er svo Theodore M. Andersson, sem fjallað hefur um söguna oftar en um
sinns sakir en síðast í grein árið 2006, þar sem hann telur hana, með fyrir-
vara um aldursgreiningaraðferðir, ritaða fyrir 1220 og ef hann sjái rétt: „we
may say not only that Víga-Glúms saga is perhaps the earliest of the north-
ern sagas but also that the author was perhaps the first to harness, more
likely from an oral than a written source, the brilliant colloquial style that
was destined to be the hallmark of the sagas“ (2006, 37–38).
Þótt Glúma sé sannarlega ekki í tölu glæsilegustu sagnanna geymir hún
fróðleg og fornleg minni sem skera sig talsvert úr, svo sem sögnina um
Vitazgjafa, akurinn sem varð aldrei ófrjór (7. kafli sögunnar) og fórnfær-
ingu til Freys með miklum afleiðingum og óvenjulegum, því guðinn virðist
manaður gegn söguhetjunni (9. kafli). Þá eru þar líka mjög einstæðar frá-
sagnir af orðaleikjum, bæði þegar Víga-Skúta dylur nafn sitt sem „Margr í
Mývatnshverfi, en Fár í Fiskilækjarhverfi“ (ÍF 9, 54) og um eiðstaf Glúms,
þegar hann leikur á menn með stakri snilli og sver: „at ek vark at þar ok vák
at þar ok rauðk at þar odd ok egg, er Þorvaldr krókr fekk bana“ (ÍF 9, 86)