Gripla - 20.12.2010, Blaðsíða 345
345NÝTT AF BJARNA JÓ NSSYNI LÖ GBÓ KARSKRIFARA
… þá Jón Jónsson, er kenndur var Gudduson og Guðrúnu
Þórarinsdóttur og fleiri aðra menn lýsa því oftsinnis eftir Guðrúnu
heitinni Gunnlaugsdóttur, að sá landspartur sem liggur utan til við
klyftina millum Skarðs og Eyjar hefði léður verið frá Snæfjöllum
Kristínu ríku er sat í Æðey undir hitaelda, og aldrei hefi ég annað
síðan heyrt um mína ævi en þessi partur hafi léður verið. Hér
með hefi ég vitað að þessi partur hefur ekki átölulaus verið í mínu
minni af þessum prestum s. Halldóri Gunnlaugssyni og s. Greipi
Þorleifssyni, sem Snæfjöll hafa haldið og ég hefi hjá verið um áður
sagða tíma.20
Í vitnisburðinum er Guðrún Gunnlaugsdóttir ein sögð látin en ætla mætti
að þau Jón Gudduson Jónsson og Guðrún Þórarinsdóttir séu það einnig
því annars hefði vitnisburður þeirra verið tekin um orð Guðrúnar
Gunnlaugsdóttur. Hins vegar er vel hugsanlegt að þau hafi verið á lífi en
flutt af Snæfjallaströnd í aðrar fjarlægari sveitir. Enginn greinarmunur er
hins vegar gerður á séra Halldóri og séra Greipi, tengdasyni og eftirmanni
hans, og eru þeir báðir sagðir „hafa haldið“ staðinn. Halldór hlýtur þó að
vera dáinn því hann kemur fyrst við skjöl 1526 en yngsta skjalið sem kunn-
ugt er að hann sé viðriðinn er frá 2. júní 1563.21 Það að ekki sé tekið fram að
séra Greipur sé látinn þýðir því ekki endilega að hann sé á lífi. Það verður
einnig að teljast líklegra að með vitnisburðinum frá 15. nóvember 1595 sé
nýr prestur að tryggja eignarheimildir kirkju sinnar en séra Jón skrifaði
einnig biskupi um rekaítök 1597 og tók afrit af dómsskrá um landamerki
Snæfjallastaðar og Ness í Grunnavík árið 1601 eins og vikið verður að síðar.
20 AM Dipl. Isl. II, 4. Apógraf nr. 2353. Annar vitnisburður um sama efni frá 1. september
1516 var varðveittur á kálfskinni í skjalasafni Snæfjallakirkju í upphafi 18. aldar er Árni
Magnússon lét taka afrit af skjölum kirkjunnar, sbr. Diplomatarium Islandicum. Íslenzkt
fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf og gjörninga, dóma og máldaga, og aðrar skrár, er snerta
Ísland eða íslenzka menn VIII, útg. Jón Þorkelsson (Reykjavík: Hið íslenzka bókmentafélag,
1906–1913), 595–596. Þess má geta að hitueldur er sá eldur sem notaður er við ölgerð,
þ. e. ölhitu, sjá Halldór Halldórsson, Íslenzkt orðtakasafn, 3. útgáfa, Íslenzk þjóðfræði
(Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1993), 217–218.
21 Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár II, 95–96, 255. Sýnishorn af rithendi séra Greips
hefur varðveist en hann skrifar eignayfirlýsingu sína framan við tvö skinnblöð úr tvísöngs-
bók en þar hafa einnig verið skrifaðar nokkrar gátur með annarri yngri hendi, sbr. Ágúst
Sigurðsson, Forn frægðarsetur II, 84–85 og mynd á milli, 96–97. Um gáturnar, sjá Ólafur
Halldórsson, „Því flýgur krákan víða,“ Grettisfærsla. Safn ritgerða eftir Ólaf Halldórsson gefið
út á sjötugsafmæli hans 18. apríl 1990, Rit 38 (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar á
Íslandi, 1990), 111–134.