Gripla - 20.12.2010, Blaðsíða 241
241
heldur Turpin, erkibiskup af borginni Reims í Frakklandi, en þegar á líður
frásögnina tekur Calixtus við aftur (í kafla XXIV) og heldur utan um hana
allt til loka. Bókinni lýkur með kafla XXV. Hún fjallar að miklu leyti um
Karlamagnús konung og kappa hans og er einn þeirra erkibiskupinn
Turpin. Hann á að hafa tekið þátt í flestum atburðunum sem sagt er frá og
verið vitni að þeim. Með öðrum orðum, sannleikurinn hreinn og tær situr
í fyrirrúmi. Þó að efni Fjórðu bókar feli í sér skírskotanir til Jakobs post-
ula, til dæmis birtist hann Karlamagnúsi þrisvar í draumi, gegnir hann ekki
mikilvægu hlutverki og er þess vegna ekki að undra að litið hafi verið á
Fjórðu bókina sem sjálfstæða heild og hefur hún kannski verið það í upp-
hafi. Hún hefur ýmist verið kölluð Turpinskrónika eða Pseudo-Turpin.
Fyrstu sautján kaflar Fjórðu bókar, eða Turpinskróniku, og mestallur
átjándi kaflinn, eru til á norrænu í Karlamagnús sögu og kappa hans og hafa
þeir hugsanlega verið þýddir í Noregi. Ekki er þó hægt að slá því föstu.
Þegar um þýðingar er að ræða á norræna tungu á miðöldum, hvort sem það
eru bækur af trúarlegum toga eða þýðingar á frönskum ljóðsögum eða
kappakvæðum, er nánast ómögulegt að vita hvort þær voru þýddar í Noregi
eða á Íslandi, þar sem tungumálin voru svo náskyld.16 Kaflarnir sautján í
Turpinskróniku hinni íslensku eru mjög samhljóða frásögninni í Codex
Calixtinus. Eins og áður sagði snýst hún að mestu um Karlamagnús og
afreksverk hans á Spáni. Þeim sem þýddi kaflana á norrænu eða safnaði
saman frásögnum um Karlamagnús, hefur hugsanlega fundist að þeir ættu
betur heima í sögu um keisarann franska en um postulann Jakob. Eða þá
að eintakið sem þýtt var eftir hefur verið sérstök saga. Frásagnir af Karla-
magnúsi voru ,,vinsælar“ um þessar mundir og notaðar í ýmsum tilgangi,
eins og Meredith-Jones bendir á.17
16 Fræðimenn eru ekki á einu máli hvað þetta atriði varðar. Sjá Jónas Kristjánsson, „Sagas and
Saints’ Lives,“ Cultura Classica e Cultura Germanica Settentrionale, a cura di Pietro Janni,
Diego Poli og Carlo Santini (S. Severino: Università di Macerata, 1985), 125. Einnig Philip
Roughton, „Stylistics and sources of the Postolasögur in AM 645 4to and AM 652/630 4to“,
Gripla 16 (2005): 9–10. Ólafur Halldórsson, Sögur úr Skarðsbók, 23. Þórður Ingi Guðjónsson
í Jón Ma. Ásgeirsson og Þórður Ingi Guðjónsson, Frá Sýrlandi til Íslands. Arfur Tómasar
postula (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2007), 164. Ekkert er því til fyrirstöðu að líta svo á að
sumar þýðingar hafi verið gerðar í Noregi og aðrar á Íslandi, einkum eftir því sem á leið. Ekki
er heldur útilokað að nýjar þýðingar hafi verið gerðar, þótt eldri þýðingar væru til.
17 Meredith-Jones, C. Historia Karoli Magni et Rotholandi ou Chronique du Pseudo-Turpin
(Genève: Slatkine Reprints, 1972; Réimpression de l’édition de Paris, 1936), 37.
JAKOBS SAGA POSTOLA