Gripla - 20.12.2010, Blaðsíða 363
363NÝTT AF BJARNA JÓ NSSYNI LÖ GBÓ KARSKRIFARA
sem stafirnir helst líktust. Þannig lítur einnar nætur gamalt tungl út eins og
C, O líkist lyklahring og U liggur á bakinu með fætur upp í loft.57
Borin hafa verið kennsl á níu handrit með hendi Bjarna og þar af eru
þrjú skrifuð á skinn en sex á pappír. Öll þrjú skinnhandritin geyma texta
Jónsbókar en ekkert pappírshandritanna sex. Af skinnhandritunum má sjá
að Bjarni beitir tvennskonar aðferðum við bókagerð sína. Annars vegar
notast hann við bókfell sem hefur verið verkað sérstaklega til bókagerðar
eins og handritið Trinity College Dublin L. 3.23 en það er skrifað árið
1634, væntanlega á Mýri, á stíft og illa verkað bókfell. Hins vegar varð
hann sér úti um gömul kaþólsk latínurit sem höfðu misst gildi sitt við sið-
breytingu og endurnýtti þau með því að skafa burt skriftina og skrifa á
uppskafið bókfellið. Hann leggur talsvert á sig til að endurnýta fagurdregna
upphafsstafi latínuritanna og hagnýtir sér þá á hugvitssaman hátt í
Jónsbókaruppskrift sinni. Þannig neyðist hann t. d. í NKS 1931 4to að
hnika lítillega til texta landslaganna svo hægt sé að nota upphafsstafina og
allt gangi upp.58
Þau tvö handrit Bjarna sem skrifuð eru á uppskafninga eru NKS 1931
4to, skrifað á Mýri 1631 og NKS 340 8vo, skrifað á Skarði 1652. Það sem er
athyglisverðast við þessi handrit er að þrátt fyrir að 21 ár aðskilji þau í tíma
þá er sama uppskafna skinnhandritið notað við gerð þeirra beggja. Allt
NKS 1931 4to, sem er 87 blöð, samanstendur af því en þar sem latínuritið
var í arkarbroti þá voru einungis notuð 44 blöð þess við gerð Jóns-
bókarhandritsins. Fyrrnefnd endurnýting Bjarna á upphafsstöfum latínu-
57 Hróðmar Sigurðsson, „Íslenzk stafrófskver,“ Skírnir 131 (1957): 41–43; Eitt lítið stafrófs-
kver fyrir börn og ungmenni (Skálholt: [s.n.], 1695), kver A, bl. 2r-v; Margrét Eggertsdóttir,
„„Árni fær á endann skell…“ Skriftarkennsla á Íslandi um miðja sautjándu öld,“ Jocoseria
Arna-Marianiana. Seksogtyve udvalgte dels kortvillige, dels alvorlige Historier, hvorved Mariane
Overgaard kan opbygges, ópr. afmælisrit (Hafniæ, 2001), án blaðsíðutals. Einnig má benda á
varðandi lestrar- og skriftarkennslu að í Búalögum er það að kenna manni stafróf verðlagt
til tólf álna, sbr. Búalög um verðlag og allskonar venjur í viðskiptum og búskap á Íslandi, Sögurit
13 (Reykjavík: Sögufélag, 1915–1933), 21, 150, 170, 196. Aldur þeirra Búalagahandrita þar
sem getið er um stafrófskennslu eru frá því um 1550 til 1661, sbr. 13, 190.
58 Springborg, „Nyt og gammelt fra Snæfjallaströnd,“ 297–298, 320. Það er athyglisvert að
Bjarni skuli taka upp á því árið 1634 að skrifa á bókfell sérstaklega verkað til bókagerðar
þegar hann bæði fyrir og eftir þann tíma skrifar á uppskafninga. Ætla má að Bjarni hafi
álitið tilraunina misheppnaða og horfið frá því að skrifa meira á sérverkað bókfell enda
viðvaningslega að verkuninni staðið. Hugsanlega hafa harðindin, sem gengu yfir landið á
árunum 1633–1634 og ollu miklum fjárdauða m. a. hjá Bjarna sjálfum, skipt einhverju máli
hvað þetta varðar. Það er því ekki ólíklegt að menn hafi reynt að nýta skinnin af föllnum
fénaði sínum og að mikið framboð ódýrra skinna hafi freistað Bjarna til bókagerðar.