Gripla - 20.12.2010, Blaðsíða 284
GRIPLA284
sýndist honum öll hans klæði þau er hann hafði. Þessir menn riðu
allir úr landsuðri og vestur eftir loftinu því nær skjótt sem tungl
fullt. (Örnólfur Thorsson 1988, 924)2
Í textanum hér að ofan eru þau atriði skáletruð sem eru dæmigerð tákn í
allegórískum verkum. Enn fleiri atriði geta haft táknmerkingu, og mun
vikið að þeim síðar.
Guðrún P. Helgadóttir, sem bjó Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar til prent-
unar (1987), taldi að hestarnir vísuðu til hestanna fjögurra í Opinberun
Jóhannesar í Biblíunni. Í Opinberunarbókinni segir frá heimsendi, og birt-
ist guð þar sitjandi á kerúbi. Í hægri hendi heldur hann á skjalarollu með sjö
innsiglum. Þegar fjögur þeirra eru rofin birtast fjórir hestar, hvítur, rauður,
svartur og bleikur (eða fölgrænn). Þeir, ásamt knöpunum eru venjulega
taldir tákna hernám eða sigur, stríð, hungur og dauða, þótt aðeins sá síðast-
nefndi sé nafngreindur. Knaparnir halda á boga, sverði og vogarskálum.
Ekki er þess getið að sá síðastnefndi héldi á neinu, en hann er nefndur
Dauði og er oft sýndur með ljá.3
Guðrún bendir á að hestarnir í Hrafns sögu séu að vísu bara þrír, en litir
þeirra séu svipaðir og í Opinberunarbókinni og höfundur hafi látið það
nægja til að kveikja hugrenningatengsl við heimsendaspá Opinberunarbókar-
innar. Guðrún telur önnur tákn sýnarinnar í Hrafns sögu of staðbundin eða
einstaklingsbundin til að hægt sé að túlka þau.
2 Sbr. einnig Guðrún P. Helgadóttir 1987, 38–39. Handritafræði Hrafns sögu eru flókin og
vísast í rit Guðrúnar P. Helgadóttur (1987; 1993) um stafréttan texta og frávik einstakra
handrita.
3 „Og ég sá, er lambið lauk upp einu af innsiglunum sjö, og ég heyrði eina af verunum fjórum
segja eins og með þrumuraust: „Kom!“ Og ég sá, og sjá: Hvítur hestur, og sá sem á honum
sat hafði boga, og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra.
Þegar lambið lauk upp öðru innsiglinu, heyrði ég aðra veruna segja: „Kom!“ Og út gekk
annar hestur, rauður, og þeim sem á honum sat var gefið vald að taka burt friðinn af jörð-
unni, svo að menn brytjuðu hverjir aðra niður. Og honum var fengið sverð mikið.
Þegar lambið lauk upp þriðja innsiglinu, heyrði ég þriðju veruna segja: „Kom!“ Og ég sá,
og sjá: Svartur hestur, og sá er á honum sat hafði vog í hendi sér. Og mitt á meðal veranna
fjögurra heyrði ég eins konar rödd er sagði: „Mælir hveitis fyrir daglaun og þrír mælar
byggs fyrir daglaun, en eigi skalt þú spilla olíunni og víninu.“
Þegar lambið lauk upp fjórða innsiglinu, heyrði ég rödd fjórðu verunnar, er sagði: „Kom!“
Og ég sá, og sjá: Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði, og Hel var í för með
honum. Þeim var gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar, til þess að deyða með sverði, með
hungri og drepsótt og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar.“ Opinberun Jóhannesar
6.