Gripla - 20.12.2010, Blaðsíða 364
GRIPLA364
ritsins veldur því að kveraskiptingin verður óregluleg. Fjórtán blöð úr
þessu sama latínuriti voru síðan notuð við gerð NKS 340 8vo en sjö síðustu
blöð þess eru fengin úr öðru samskonar handriti. Í allt hafa því 58 blöð úr
einu og sama kaþólska latínuritinu verið notuð við gerð þessara tveggja
Jónsbókarhandrita.59 Þetta bendir til þess að Bjarni hafi nýtt það sem gekk
af latínuritunum við Jónsbókarframleiðsluna enda er það handrit í átta
blaða broti á meðan hin tvö eru í fjögurra blaða broti.
Ætla mætti að nærtækast hafi verið fyrir Bjarna að útvega kaþólsk lat-
ínurit, til notkunar við Jónsbókarframleiðsluna, í kirkjunni á æskuheimili
hans á Snæfjöllum. Þar hafa þau legið í stöflum en í máldaga Gísla biskups
Jónssonar, sem árfærður hefur verið til 1570 og síðar, kemur fram að kirkj-
an á Snæfjöllum eigi fjórtán gamlar bækur. Bjarni hefur þó ekki aðeins
fengið hráefnið til Jónsbókarframleiðslunnar í Snæfjallakirkju því þaðan
hefur hann einnig fengið fyrirmynd að eigin upphafsstöfum. Springborg
kemst nefnilega að þeirri niðurstöðu að upphafsstafir Bjarna séu fyrst og
fremst dregnir eftir fyrirmynd Guðbrandsbiblíu. Kirkjan á Snæfjöllum átti
eintak af Guðbrandsbiblíu sem hún hafði fengið að gjöf frá Guðbrandi bisk-
upi. Í vísitasíu Brynjólfs biskups frá 17. ágúst 1643 er biblían sögð „forörg-
uð“ en nothæf. Hún var metin á eitt hundrað í vísitasíu 17. ágúst 1675 og
vegna eklu á slíkum bókum leyfði Þórður biskup Þorláksson Snæfjallapresti
að selja hana fyrir það verð. Andvirðinu skyldi varið til að fá nauðsynlega
gripi handa kirkjunni, helst góðan kaleik og sýndist nálægum mönnum það
mun hentugra en að biblían myndi rotna og eyðileggjast.60
Það er athyglisvert að eina skinnhandritið úr smiðju Bjarna sem ekki er
skrifað á uppskafning og er því verkað sérstaklega til bókagerðar er heldur
hroðvirknislega úr garði gert. Ástæðan er eflaust kunnáttuleysi því hand-
verkið við bókfellsframleiðsluna var fallið í gleymsku. Orsök þess að kunn-
áttan glopraðist niður er einungis að hluta til vegna tilkomu pappírsins því
miklu hlýtur einnig að skipta að við siðbreytingu verður gífurlegur fjöldi
kaþólskra latínurita ónothæfur og er að mestu tekinn úr umferð. Þetta
offramboð af skinnbókum sem hægt var að skafa upp og endurnýta hefur,
59 Springborg, „Nyt og gammelt fra Snæfjallaströnd,“ 325–326.
60 Diplomatarium Islandicum. Íslenzkt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf og gjörninga,
dóma og máldaga, og aðrar skrár, er snerta Ísland eða íslenzka menn XV, útg. Páll Eggert
Ólason (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1947–1950), 564; Springborg, „Nyt og
gammelt fra Snæfjallaströnd,“ 320; ÞÍ. Biskupsskjalasafn A II, 6, bls. 82 og A II, 11, bls.
23–24.