Gripla - 20.12.2010, Blaðsíða 365
365NÝTT AF BJARNA JÓ NSSYNI LÖ GBÓ KARSKRIFARA
ásamt pappírnum, eflaust valdið því að eftirspurn eftir eða þörf til að fram-
leiða bókfell hefur ekki verið mikil á seinni hluta 16. aldar. Þegar menn fara
svo að framleiða bókfell til bókagerðar á 17. öld, en til eru nokkur dæmi
þess, þá er handverkið týnt og afraksturinn eftir því, þ. e. blöð handritanna
eru hörð, stíf og óþjál viðkomu.61
Gera má ráð fyrir að mestur hluti þessara kaþólsku skinnbóka hafi verið
skafinn upp og endurnýttur til bókagerðar og til undantekninga hljóti að
teljast þau örlög sem bókum Helgafellsklausturs var búin. Þannig segir í
fyrrnefndum Gíslamáldaga að kirkjan að Odda á Rangárvöllum eigi átján
bækur góðar auk talsverðs bókarusls. Presturinn þar hefur líkt og Bjarni
endurnýtt þessi úreltu latínurit en um hann segir: „Item 2 bækur er síra
Erlendur hefur skafið og aftur á skrifað Guðs orð.“62 Ekki hefur þó farið
þannig fyrir þeim öllum og til samanburðar má athuga hvað varð um sams-
konar skinnhandrit tveggja kirkna á Vestfjörðum um miðja 17. öld. Holts-
prestar í Önundarfirði, þeir Jón Jónsson og Sigurður Jónsson prófastar,
notuðu t. d. skinnblöð úr latínuritum frá 14. og 15. öld utan um embættis-
bækur sínar.63 Bækur kirkjunnar í Selárdal í Arnarfirði voru hins vegar
seldar sem gamalt og ónothæft inventarium, þ. e. fylgifé, í vísitasíu
Brynjólfs biskups 28. ágúst 1650. Kaupendurnir voru fylgdarmenn biskups
en um söluna segir:
Sjö permentsbækur, ein stór, sex smáar, ein pappírsbók, allar í
hundrað, keypti Þorleifur Jónsson fyrir fjóra ríkisdali. Eina
lestra bók á perment keypti Halldór Eiríksson 5 aurum. Þrjár smáar
bækur og ein þýsk keypti Þorleifur Jónsson 5 aurum, en söngbók á
perment keypti Þorleifur Jónsson 5 aurum. En permentsbók keypti
Eiríkur Vigfússon fimmtán álnum.64
61 Um 17. aldar skinnhandrit, sjá Þórarinn Hjartarson, Skinna. Saga sútunar á Íslandi, Safn til
iðnsögu Íslendinga 14 (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2000), 27. Í Búalögum er
skafið kálfskinn verðlagt til eyris en það að skafa kálfskinn til alinar, sbr. Búalög, 42–43.
Tilvitnað handrit er frá 15. öld en verðlagningin er sú sama í handriti frá seinni hluta 17.
aldar, sjá 197–198.
62 Diplomatarium Islandicum XV, 664, en þaðan er bein tilvitnun fengin. Umræddur prestur
mun vera séra Erlendur Þórðarson síðar að Stað í Steingrímsfirði sem þegar hefur verið getið
hér að framan, sbr. Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár I, 446. Um brennu Helgafellsbóka,
sjá Einar G. Pétursson, Eddurit Jóns lærða Guðmundssonar I, 389–393 og II, 90.
63 Jakob Benediktsson, Skrá um skinnblöð í Landsbókasafni Íslands, 9, 14.
64 Guðs dýrð og sálnanna velferð, 409.