Gripla - 20.12.2010, Blaðsíða 361
361NÝTT AF BJARNA JÓ NSSYNI LÖ GBÓ KARSKRIFARA
Fyrst er að nefna bréf prófastsins séra Snæbjarnar Torfasonar þar sem
hann gefur, með samþykki Þóru Jónsdóttur eiginkonu sinnar, Stað í
Aðalvík með öllum gögnum og gæðum á milli fjalls og fjöru prestinum þar
til uppheldis. Að loknum skilmálum hans fyrir gjöfinni, að prestar þar
verði að vera nægilega efnaðir og mannaðir til þess að staðurinn níðist ekki
niður, fól hann staðinn undir vernd og forsjá Skálholtsbiskups. Vottar að
þessum gerningi voru séra Ólafur Halldórsson prestur að hálfum Stað í
Steingrímsfirði, séra Árni Jónsson prestur í Tröllatungu í Tungusveit og
séra Jón Þorleifsson að Snæfjöllum. Þeir settu innsigli sín undir bréfið, sem
skrifað var á Kirkjubóli samdægurs, ásamt séra Snæbirni.53
Hitt bréfið vottar gerning sem fram fór á sama stað og dag. Þar lofa þær
Guðfinna Arnfinnsdóttir, eiginkona séra Erlendar Þórðarsonar sem hélt
hálfan Stað í Steingrímsfirði, og Guðrún Jónsdóttir, eiginkona fyrrnefnds
séra Ólafs Halldórssonar, Oddi biskupi að ábyrgjast kirkjufé Staðar í
Steingrímsfirði. Vottar að þessu sinni voru séra Snæbjörn á Kirkjubóli, séra
Gísli Einarsson í Vatnsfirði, séra Tómas Pálsson að Stað í Grunnavík, séra
Árni í Tröllatungu og séra Jón á Snæfjöllum. Þeir setja innsigli sín undir
bréfið sem skrifað var að Snæfjöllum ári síðar eða 18. mars 1603.54
Bréfin eru skrifuð hvort með sinni hendinni og er ekki ólíklegt að séra
Snæbjörn hafi sjálfur skrifað gjafabréf sitt enda er það í fyrstu persónu.
Samanburðarefni skortir þó til að staðfesta að svo sé en þó er til endurrit af
skrá frá 22. mars 1444 um reka Skálholtskirkju á Ströndum. Það er gert 6.
ágúst 1599 á Kirkjubóli í Langadal af séra Snæbirni, fyrrnefndum séra Ólafi
Halldórssyni, séra Þorsteini Oddssyni í Tröllatungu og Ara Ólafssyni. Þetta
endurrit virðist þó ekki vera með sömu hendi og gjafabréf séra Snæbjarnar
53 ÞÍ. Biskupsskjalasafn A I, hylki XIV, 14. Í ævisögu Jóns Teitssonar Hólabiskups, sem
prentuð var á Hólum 1782, kemur fram að séra Snæbjörn hafi gefið Stað í Aðalvík til staðar
í veikindum sínum, sjá Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II, 203–204.
Veikinda séra Snæbjarnar er ekki getið í umræddu gjafabréfi en hann dó árið 1607, sbr. Páll
Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár IV, 311. Hönd þess sem skrifar bréfið virðist þó fremur
óstyrk.
54 ÞÍ. Biskupsskjalasafn A I, hylki XIV, 15. Erlendur Þórðarson fékk Stað í Steingrímsfirði
1568 en lét hálfan staðinn af hendi við Ólaf Halldórsson aðstoðarprest sinn árið 1600 og
sleppti honum að fullu við hann árið 1606, sbr. Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár I,
446; Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár IV, 50. Í dómi frá 18. maí 1604 kemur fram
að séra Erlendur átti við veikindi að stríða og var talið að galdrar kæmu þar við sögu en sá
sem um var kennt sór allt slíkt af sér, sjá Ólafur Davíðsson, Galdur og galdramál á Íslandi,
107–108.