Gripla - 20.12.2010, Blaðsíða 171
171VÍSUR OG DÍSIR VÍGA-GLÚMS
– og andstæðingarnir vara sig ekki á að smáorðið at getur verið hvort held-
ur er sagnarögn eða neitun og því ógerningur að vita hvort ek var þar at
merkir ,ég var þar viðstaddur, tók þátt í’ eða ,ég var þar ekki’. En það eru
ekki þessi og þvílík sagnaminni sem hér verða einkum rædd, heldur kveð-
skapur Glúms sjálfs.
Oft hefur verið bent á að margt sé líkt með víkingasögunum af Agli
skáldi Skallagrímssyni og Glúmi skáldi Eyjólfssyni, en þó alls ekki ljóst, ef
tengsl eru milli sagna, hvor þiggur af hinni. Sem listaverk hefur Egla mikla
yfirburði og þróunarkenning myndi þá gera ráð fyrir að hún sé yngri.
Margt í Glúmu kallast líka á við hugmyndir okkar um munnsögur. Ferill
Glúms er af toga ævintýra og fornaldarsagna. Hann er kolbítur, rís úr
öskustó til að berja berserk og framast þannig og auðgast á erlendri grund,
kemur heim og tekur við búi og verður smám saman héraðshöfðingi en
hlýtur þó að láta andstæðingum eftir völdin og virðinguna, kannski vegna
þess að hann virðir ekki að fullu örlagaþætti sem búið er að vara hann við,
og hann deyr líkt Agli, blindur og örvasa. Engin tilraun er gerð til að gera
úr honum hrífandi hetju, en sálu hans virðist þó að einhverju leyti borgið
með því að hann er biskupaður, þ. e. a. s. fermdur að sögulokum – þó svo
sagnfræðinni kunni að vera ábótavant þar.1
Í Víga-Glúms sögu eru varðveittar eftir Glúm níu vísur heilar, ein hálf og
sex vísuorð úr hinni elleftu. Sagan er öll geymd í einu miðaldahandriti,
Möðruvallabók (M, AM 132 fol., 1330–1370) en brot í Vatnshyrnu (AM
564 a 4to, 1390–1425) og AM 445 c, 4to (1390–1425).2 Í þessari grein verð-
ur fylgt elstu handritum um texta vísna. Lesbrigði handrita af vísum Glúms
eru enda oftast fremur smávægileg.
Auk Glúmu eru þrír vísuhelmingar eftir Glúm varðveittir í handritum
Snorra-Eddu eins og síðar verður gerð grein fyrir. Þá verða lesbrigði nokkru
meiri en ella, enda þá komin fimm skinnhandrit til viðbótar og afrit hins
sjötta.3 Loks er svo vitnað í vísur eftir Glúm í Þórðarbók Landnámu og er
textinn þar frá 17. öld þótt hann byggi á mun eldri fyrirmyndum.
1 Til frekari fróðleiks um þá þanka sem hér er tæpt á skal einkum vísað til skrifa þeirra
Jónasar Kristjánssonar (1956) og Theodore M. Anderssons (2006).
2 Um aldur handrita fylgi ég ONP 1989.
3 Handritin eru: Gks 2367 (Konungsbók, R), DG 11 (Uppsalabók, U), AM 748 Ib, AM 757 a
og AM 748 II (1eβ) (óheil handrit Skáldskaparmála, sem í útgáfu Finns Jónssonar fengu
bókstafina A , B og C), AM 242 (Ormsbók, W) og pappírshandritið 1374 í háskólabókasafn-
inu í Utrecht (Trektarbók, T).