Gripla - 20.12.2010, Blaðsíða 340
GRIPLA340
sína og leiddi málið til lykta sem fyrst með veraldlegum aðgerðum. Hún
taldi að hvorki væri hægt að veita Bjarna heilagt sakramenti né leynilega
syndaaflausn fyrr en niðurstaða fengist í málið. Að endingu benti presta-
stefnan á að sóknarprestur Bjarna væri skyldugur að áminna hann.9
Ari fór að ráðum prestastefnunnar og brást skjótt við því í sakeyris-
reikningum árið 1640, en þar miðast reikningsárið við Jónsmessu á sumri,
eða 24. júní, er fært til bókar að Bjarni hafi goldið átta ríkisdali í sekt fyrir
hórdómsbrot. Þar segir ennfremur að hann hafi gerst brotlegur með
Guðrúnu Jónsdóttur og að henni hafi þegar verið refsað.10
3. Fjölskylda og frændgarður
Í Unaðsdalsdómi Ara í Ögri kemur fram að þingapresturinn var faðir
Bjarna en prestur á Stað á Snæfjallaströnd á þessum tíma var séra Jón
Þorleifsson. Lítið er vitað um hann með vissu þó hann hafi verið tekinn
upp í prentuð mannfræðirit. Páll Eggert Ólason segir að hann hafi verið
uppi á 16. og 17. öld. Hann komi við skjal 22. október 1588 og sé þá orðinn
prestur e. t. v. að Brjánslæk á Barðaströnd en hafi brátt fengið Stað á
Snæfjallaströnd þar sem hann er að finna 1636 og svo virðist sem hann sé
enn á lífi 17. ágúst 1643. Páll Eggert segir að sumir telji að fyrsta kona hans
hafi verið Guðrún Eyjólfsdóttir en þau hafi verið barnlaus. Miðkona séra
Jóns segir hann að hafi heitið Sesselja en föðurnafns hennar sé hvergi getið.
Þau hafi eignast saman fjögur börn; Árna, Bjarna, Sigríði sem átti Bjarna
Bjarnason á Arngerðareyri og Jón. Þriðja kona hans var svo Guðrún
Brynjólfsdóttir ekkja séra Ísleifs Styrkárssonar á Stað í Hrútafirði og voru
9 Guðs dýrð og sálnanna velferð. Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639–1674,
útg. Már Jónsson, Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 10 (Reykjavík: Háskólaútgáfan,
2005), 49, 51–52.
10 ÞÍ. Skjalasafn Rentukammers Y. 4. Reikningar jarðabókarsjóðs 1633–1640. Örk 19,
Lénsreikningar fyrir reikningsárið 1639–1640, Ísafjarðar- og Strandasýsla. Þess má geta
að Magnús Magnússon sýslumaður á Eyri tók saman rit þar sem hann raðar í stafrófsröð
inntaki allra alþingisálita frá 1631–1692. Hann hefur smíðað sér þetta verkfæri til að vera
fljótari að finna hlutina og er vísun við hvert álit til blaðsíðutals í annarri bók þar sem
dómurinn hefur verið skrifaður í heild sinni. Á einum stað segir: „1642 Bjarna Jónssonar
öðru hórdómsbroti lýst úr Ísafjarðarsýslu. F – 48.“, sbr. Lbs 229 fol., bl. 139v, sjá einnig
Alþingisbækur Íslands I, útg. Jón Þorkelsson (Reykjavík: Sögufélag, 1912–1914), xviii. Ekki
hefur tekist að finna bókina sem vísað er til og ekki er minnst á þetta í Alþingisbókinni
1642, sjá Alþingisbækur Íslands VI, útg. Einar Arnórsson (Reykjavík: Sögufélag, 1933–1940),
71–97.