Gripla - 20.12.2010, Blaðsíða 370
GRIPLA370
um ósæmilegt orðbragð Vigfúsar sýslumanns í garð Býjaskersdóms, fógeta
og lögmanna við fyrrnefnt tækifæri.73
Allt er á huldu um hvað varð af Melkjör Hansen eftir þetta. Hugsanlega
hefur hann fengist áfram við verslun en einnig mætti hugsa sér að störf
hans fyrir íslenska verslunarfélagið hafi fært honum enn frekari frama jafnt
innan þess sem utan og að hann hafi jafnvel horfið til verslunarstarfa utan
Íslands með konu og börn. Hvað sem því líður þá var æskilegt að danskir
kaupmenn sem fengust við verslunarrekstur á Íslandi kynnu tungumálið og
þekktu eitthvað til landslaganna. Þetta tvennt virðist Melkjör hafa tileinkað
sér enda dvaldist hann hér árið um kring sem eftirlegumaður, var í slagtogi
við íslenska konu og hafði í tvígang komist í kast við lögin sökum of bráðra
barneigna með henni. Það ætti að hafa verið nægilegur hvati til þess að
hann útvegaði sér eintak af lögbók Íslands og kynnti sér efni hennar. Þar að
auki varð hann sem hagsmunavörður íslenska verslunarfélagsins að hafa
lögbókina við höndina til undirbúnings lagasetningar í dómsformi.74
8. Lokaorð
Bjarni Jónsson var prestssonur af Snæfjallaströnd en foreldrar hans voru
séra Jón Þorleifsson á Stað og Sesselja. Lítið er vitað með vissu um ættir
þeirra hjóna en séra Jóns er aðeins getið í framhjáhlaupi í ættartölubók frá
miðri 17. öld og föðurnafn Sesselju er með öllu ókunnugt. Þetta tvennt
73 Alþingisbækur Íslands V, 352–353, sjá einnig 361–363 en þar vottar Melkjör ásamt þremur
Íslendingum að bréf Jens Söfrensen fógeta, þar sem hann sviptir m. a. Vigfús Gíslason
Árnessýslu fyrir að neita að vinna sýslumannseið frammi fyrir sér, sé rétt afrit frumritsins
sem lesið var upp á Vælugerðisþingi 6. október 1634.
74 Þótt fáir kaupmenn virðist hafa lagt sig eftir því að læra íslensku og kynna sér landslögin má
þó a. m. k. benda á eitt dæmi þess. Í prentaðri Jónsbók sem varðveitt er í háskólabókasafn-
inu í Kaupmannahöfn er að finna áritun, dagsetta 22. ágúst 1624, þar sem maður með
fangamarkið C.E. gefur Lauritz Bagge, sínum kæra bróður, umrædda lögbók til minningar
um sig, sjá Steingrímur Jónsson, „„Núpufellsbók.“ Gömul, prentuð lögbók án útgáfustaðar
og árs,“ 41. Gefandinn hefur eflaust verið að hverfa frá verslunarstörfum á Íslandi og talið
að Jónsbókin myndi koma Lauritz Bagge, sem e. t. v. var að taka við höfninni hans, að
betri notum en sér. Óvíst er hvar Lauritz Bagge hóf verslunarrekstur sinn en hann var
kaupmaður í Djúpavogi við Berufjörð árið 1632 og hafði þá verið þar í a.m.k. tvö ár, sbr.
Alþingisbækur Íslands V, 253–255. Þess má jafnframt geta að félagar í elsta íslenska verslunar-
félaginu, sem stofnað var 1620, kölluðu hver annan bræður hvort tveggja í samþykktum
félagsins og daglegu tali, sbr. Jón J. Aðils, Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602–1787,
93.