Gripla - 20.12.2010, Blaðsíða 358
GRIPLA358
Jón Vídalín biskup. Í fyrrnefndri greinargerð Árna Magnússonar kemur
fram að dómsskráin og staðfestingarbréf Stefáns biskups hafi staðið framan
við grallarann. Hann segist hafa tekið afrit af frumriti þessara skjala og
gefið kirkjunni og að Jón biskup hafi látið færa inn á spássíu vísitasíunnar
frá 10. ágúst 1700 að afritið tilheyrði kirkjunni og ætti að fylgja henni.
Þessum fyrirmælum hefur biskup fylgt og getur þess á neðri spássíu vísi-
tasíubókarinnar að afrit Árna hafi verið gert 18. mars 1711 eftir frumritun-
um sem hann hafi gefið Sæmundi Magnússyni á Hóli í Bolungarvík eig-
anda Ness í Grunnavík.46 Jón Árnason biskup vísiteraði að Snæfjöllum 2.
ágúst 1740 en þar kemur m. a. fram að kirkjan eigi tvo prentaða grallara frá
1723 en jafnframt afgamlan kálfskinnsgrallara. Þessar upplýsingar eru
endurteknar í vísitasíu Ólafs biskups Gíslasonar 27. ágúst 1749. Það sama
kemur fram í vísitasíu Finns Jónssonar 19. ágúst 1761 og 16. júní 1775 en þá
vísiteraði Björn Halldórsson prófastur í umboði hans. Loks segir í vísitasíu
Hannesar biskups Finnssonar frá 8. ágúst 1790 að kirkjan eigi skrifaðan
grallara á kálfskinni.47
Vestfirðir virðast ekki hafa verið vísiteraðir aftur fyrr en búið var að
sameina biskupsdæmin tvö og ekki fyrr en í tíð Helga G. Thordersen bisk-
ups. Þá vísiteraði séra Lárus M. Johnsen í Holti, settur prófastur í Vestur-
46 ÞÍ. Biskupsskjalasafn A II, 14, bl. 43v–44r; Diplomatarium Islandicum VIII, 452–453. Í
byrjun 18. aldar fékk Árni Magnússon fjölda skjala að láni hjá séra Hannesi Benediktssyni
til afritunar og hefur eitthvað af þeim verið úr skjalasafni Snæfjallakirkju og varðað eign-
arheimildir hennar, sjá t. d. AM Dipl. Isl. I, 10. Apógröf nr. 833–849. Óvíst er um afdrif
frumrita skjalanna, þ. e. a. s. hvenær þau týndust en kirkjan var flutt að Unaðsdal árið
1867. Staðarprestakall var lagt niður 1880 og Unaðsdalssókn lögð til Kirkjubólsþinga.
Presturinn bjó á Melgraseyri við Ísafjarðardjúp en þar varð húsbruni 3. júlí 1905 og brunnu
m. a. bækur og skrifstofuáhöld prestsins. Þetta gerðist áður en nokkru hafði verið bjargað
í hús af Jóni Þorkelssyni landsskjalaverði en elstu embættisbækur Snæfjallaþinga hafa
líkast til allar glatast í brunanum. Þannig hefst eina varðveitta prestsþjónustubókin árið
1860 en elsta varðveitta sóknarmannatalið 1865 og er mjög skörðótt framan af, sbr. Sveinn
Níelsson, Prestatal og prófasta á Íslandi, með viðaukum og breytingum eftir dr. Hannes
Þorsteinsson, Björn Magnússon sá um útgáfuna og jók við, 2. útgáfa (Reykjavík: Hið
íslenzka bókmenntafélag, 1950), 201; Skrá um skjöl og bækur í Landsskjalasafninu í Reykjavík
II. Skjalasafn klerkdómsins (Reykjavík: [s.n.], 1905–1906), 111; Prestsþjónustubækur og sókn-
armannatöl. Skrár Þjóðskjalasafns II (Reykjavík: [s.n.], 1953), 16, 46.
47 ÞÍ. Biskupsskjalasafn A II, 16, IV. hluti, bls. 237–238; A II, 19, II. hluti, bls. 28; A II, 21, I.
hluti, bls. 211–214, 401 og A II, 24, bls. 21–23. Varðandi vísitasíu Hannesar biskups 8. ágúst
1790, sjá „Vísitasía Hannesar Finnssonar biskups um Vesturland og Vestfirði sumarið 1790.
Eftir dagbók skrifara hans, Steingríms Jónssonar,“ útg. Veturliði Óskarsson. Ársrit sögufélags
Ísfirðinga 34 (1993): 141.