Gripla - 20.12.2010, Blaðsíða 341
341NÝTT AF BJARNA JÓ NSSYNI LÖ GBÓ KARSKRIFARA
þau barnlaus. Þessar upplýsingar hefur Páll Eggert úr Æfum lærða manna
eftir Hannes Þorsteinsson (1860–1935) og Prestaæfum Sighvats Grímssonar
Borgfirðings (1840–1930).11
Páll Eggert segir ekkert um foreldra séra Jóns né ættir hans enda eru
þær með öllu ókunnar. Sighvatur segist sömuleiðis, í Prestaæfum sínum,
ekki hafa fundið ættar hans neins staðar getið. Ágúst Sigurðsson hefur hins
vegar sett fram tilgátu um að séra Þorleifur Björnsson á Stað á Reykjanesi
hafi verið faðir hans. Það er vitað að séra Þorleifur átti einmitt son sem hét
Jón en óljóst er um afdrif hans. Ef þetta er rétt þá hefur séra Jón verið hálf-
bróðir séra Greips Þorleifssonar sem hélt Stað á Snæfjallaströnd á undan
honum. Greipur var óskilgetinn sonur séra Þorleifs sem ættleiddi hann
ásamt tveimur öðrum börnum sínum 12. september 1557. Ágúst telur að
til gátan gæti staðist tímans vegna og það að séra Jón hafi fyrst þjónað að
Brjánslæk gæti skýrt kynni Einars Bjarnasonar og Þorgerðar Greipsdóttur.
En Einar var sonur Bjarna Björnssonar að Brjánslæk og Þorgerður dóttir
séra Greips. Það slitnaði upp úr trúlofun þeirra en hún var þá þegar barni
aukin. Leiðindin sem sköpuðust í kjölfar þessa telur Ágúst hafa orðið til
þess að séra Jón hafi vikið burt af Brjánslæk.12
Óháð því hvort tilgáta Ágústs feðri séra Jón á réttan hátt þá býður
Unaðsdalsdómurinn upp á möguleika til að komast á snoðir um ættir séra
11 Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 III (Reykjavík:
Hið íslenzka bókmenntafélag, 1950), 318. Þingaprestur virðist merkja hér prestur í
Snæfjallaþingum en ekki prestur sem býr annars staðar en á kirkjujörðinni því á Snæfjöllum
var staður en ekki bændakirkja.
12 Lbs 2368 4to, bls. 1023; Ágúst Sigurðsson. Forn frægðarsetur – í ljósi liðinnar sögu II
(Reykjavík: Bókamiðstöðin, 1979), 85, sjá einnig, 90; Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár
frá landnámstímum til ársloka 1940 II (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1949),
95–96; Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár III, 318; Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár
frá landnámstímum til ársloka 1940 V (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1952),
174–175; Bogi Benediktsson, Sýslumannaæfir II, með skýringum og viðaukum eftir Jón
Pétursson og Hannes Þorsteinsson (Reykjavík: Hið íslenzka bókmentafélag, 1889–1904),
315, 596–597. Óljóst er nákvæmlega hvenær þessi samdráttur Þorgerðar og Einars átti
sér stað. Kynni þeirra ættu þó ekki að þurfa að vera háð veru séra Jóns Þorleifssonar á
Brjánslæk vegna tengsla séra Greips við Barðaströnd en þangað átti hann ættir að rekja.
Einnig má benda á að í reikningsbók Magnúsar prúða Jónssonar sýslumanns í Bæ á
Rauðasandi færir hann inn skuld Björns bartskera í Rauðasandshreppi árið 1590. Hvorki
föðurnafns né ábúðarjarðar Björns er getið en að líkum bjó hann á Sjöundá. Magnús færir
einnig til bókar það sem Björn hafði goldið upp í skuldina og er þar m. a. að finna kýr frá
Skarði á Snæfjallaströnd, en Skarð var í eigu Staðar á Snæfjallaströnd, og mun færslan vænt-
anlega eiga að skiljast sem leigur af kúnni, sbr. AM 68 8vo, bl. 16r.