Gripla - 20.12.2010, Blaðsíða 356
GRIPLA356
Jón Arason gegn matlaunum sínum samkvæmt vísu sem hann hnýtir aftan
við uppskrift sína. Þar er hann enn að finna 12. febrúar 1652 þegar hann
lýkur við átjánda Jónsbókarhandrit sitt. Síðasta kunna handritið með hendi
Bjarna er frá 12. desember 1655 og er hann þá líkast til enn að Skarði þó
hann geti þess ekki hvar verkið var unnið. Springborg telur þetta vel geta
verið með síðustu handritum sem Bjarni skrifaði af upphafsstöfunum að
dæma sem skrifaðir eru af óöruggum og skjálfhentum manni. Umrætt
handrit er skrifað af þremur mönnum og er síðasti hluti þess með hendi
Þórðar Jónssonar í Skálavík. Af handritinu má sjá að Þórður vann að upp-
skrift þess í marsmánuði 1658 og þá er Bjarni enn á lífi því Þórður hælir
handbragði hans. Á bl. 106r í fyrsta hluta handritsins, sem er með hendi
Bjarna, skrifar Þórður á neðri spássíu: „Góður skrifari Bjarni minn.“42
5. Skrifari bóka og bréfa
Það eru fjölmörg dæmi þess að skriftarhæfileikar og bókagerð gangi í erfð-
ir. Því til sönnunar nægir að nefna þá feðga séra Ara Jónsson og syni hans
Tómas og Jón en þeir skrifuðu bækur á Vestfjörðum um miðja 16. öld.
Einnig á Vestfjörðum voru að störfum á seinni hluta 17. aldar feðgarnir
Þórður Jónsson m. a. í Skálavík og sonur hans Jón Þórðarson í Kálfavík.
Þeir skrifuðu bækur aðallega fyrir Magnús Jónsson í Vigur.43 Það sama
virðist eiga við um Bjarna því faðir hans séra Jón á Stað á Snæfjöllum kom
hvort tveggja að bóka- og bréfagerð. Reyndar er aðeins vitað um eina bók
með hendi hans en þær hafa e. t. v. verið fleiri þó ókunnugar séu nú.
Umrædd bók var í höndum Árna Magnússonar í byrjun 18. aldar og lýsti
hann henni þá allrækilega en framan við hana voru nokkur fornbréf sem
hann hafði áhuga á og vörðuðu eignarheimildir kirkjunnar.
42 Springborg, „Nyt og gammelt fra Snæfjallaströnd,“ 300–303, 308–309, 315. Bein tilvitnun
af 302 en sjá ennfremur mynd 2 á milli 292–293.
43 Jón Helgason, „Nokkur íslenzk handrit frá 16. öld,“ 143–168, sjá einnig Stefán Karlsson,
„Kvennahandrit í karlahöndum,“ Stafkrókar. Ritgerðir eftir Stefán Karlsson gefnar út í tilefni af
sjötugsafmæli hans 2. desember 1998, Rit 49 (Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi,
2000), 379–380 og tilvísanir þar; Agnete Loth, „Angående skriveren Jón Þórðarson,“
Steffánsfærsla fengin Stefáni Karlssyni fimmtugum Reykjavík 2. desember 1978 (Reykjavík,
[s.n.], 1978), 40–41. Jafnframt má benda á séra Grím Skúlason, son hans Björn sýslu-
mann og son hans séra Þorstein á Útskálum sem uppi voru á 16. og 17. öld en þeir komu
sömuleiðis allir að bókagerð, sbr. Stefán Karlsson, „Bókagerð Björns málara og þeirra feðga,“
Glerharðar hugvekjur þénandi til þess að örva og upptendra Þórunni Sigurðardóttur fimmtuga 14.
janúar 2004 (Reykjavík: [s.n.], 2005), 73–78.