Són - 01.01.2004, Page 11
KÁTLEGAR KENNINGAR 11
II
Í Sneglu-Halla þætti í Morkinskinnu er fræg frásögn af samskiptum
konungs og skálds:
Og einn dag er Þjóðólfur gekk að stræti með konungi, komu
þeir fyrir loft nokkur og heyra deild manna og því næst áflog.
Þar var skinnari og járnsmiður. „Göngum braut héðan,“ sagði
konungur, „yrk nú, Þjóðólfur, of deild.“ Hann mælti: „Óskylt er
það, herra.“ „Ger sem eg mæli,“ sagði konungur, „og er nökkuru
meiri vandinn á en þú ætlar. Þú skalt gera af þeim nökkvað aðra
menn en þeir eru. Lát annan vera Geirröð jötun, en annan Þór.“
Hann kvað vísu:
Varp ór þrætuþorpi
Þórr smiðbelgja stórra
hvatt eldingum höldnum
hafra kjöts at jötni;
hljóðgreipum tók húða
hrökkvi skafls ór afli
glaðr við galdra smiðju
Geirröðr síu þeirri.
Konungur mælti: „Þessi vísa er góð og vel ort og nú skaltu yrkja
aðra. Lát nú vera annan þeirra Sigurð Fáfnisbana en annan
Fáfni en kenn þó hvorn til sinnar iðnar.“ Hann kvað enn vísu:
Sigurðr eggjaði sleggju
snák váligrar brákar;
en skafdreki skinna
skreið of leista heiði;
mann sásk orm, áðr ynni,
ilvegs búinn kilju,
nautaleðrs á naðri
neflangr konungr tangar.
Konungur mælti: „Gott skáld ertu Þjóðólfur,“ og gaf honum
þegar eitt fingurgull.9
9 Morkinskinna (1932:235–236). Stafsetning er hér færð til nútímahorfs en í vísunum
er notuð samræmd stafsetning forn. Frásögnin er aðeins öðruvísi í Flateyjarbók og
þar er röð vísnanna einnig önnur. Flateyjarbok III (1868:417).