Són - 01.01.2004, Page 40
GUNNAR SKARPHÉÐINSSON40
landshætti og þá jafnframt, mætti álykta, um menningu á þessum
slóðum.
Hver er svo niðurstaða þessa máls? Segja má að hvað „Máls-
háttakvæðið“ varðar þá sé ekki margt nýtt dregið fram nema einna
helst það að röksemdirnar fyrir því að eigna Bjarna Kolbeinssyni
kvæðið séu ekki verulega veigamiklar. Eins og fyrr var sagt er ekki
hægt að leggja mikið upp úr náttúrulýsingum í kvæðinu til þess að
ákvarða heimkynni skáldsins. Ef menn hins vegar vilja nota hend-
inguna „æpa kann í mærum fröskur“ (5,8) til þess að sýna að kvæðið
sé ort utan Íslands þá má á hinn bóginn benda á að allvíða í kvæðinu
má skynja kulda mikinn og vetrarríki: „sjaldan hittist feigs vök frör-
in“ (25,1) og „langar eigu þeir bersi nætur“ (6,8). Kvæðið getur af
þeim sökum ekki talist orkneyskt fremur en til dæmis norskt. Raunar
er þetta samt ekki neitt til vitnis gegn Bjarna því að hann var sonur
manns sem búið hafði í Noregi og sjálfur kom hann oft til Noregs.
Kjarni málsins er sá að kvæðið er höfundarlaust og við það verður að
una. Það er hins vegar varðveitt í íslensku handriti sem geymir Snorra-
Eddu og tengsl við Odda virðast ekki ósennileg í einhverri mynd en
meira vitum við ekki. „Málsháttakvæðið“ hefur trúlega verið ort til
skemmtunar mönnum í fjölmenni, eins og Guðbrandur Vigfússon
taldi, og skáldið fer vissulega á kostum og skopast jafnt að sjálfum sér
og öðrum. Hvað fyrir skáldinu hefur vakað að öðru leyti er ekki
fyllilega ljóst. Brá í raun kona, sem hét Rannveig, heiti við skáldið?
Hversu djúpt ristir hinn kaldhæðnislegi tónn? Ber að skilja máls-
hættina sem dulinbúin eiturskeyti? Úr þessu verður ekki skorið en
hægt er að taka undir með Finni Jónssyni31 þegar hann kallar kvæðið
„et sandt mesterværk“.
31 Finnur Jónsson (1890:266).