Són - 01.01.2004, Síða 146
EYSTEINN ÞORVALDSSON146
en rauðan
drýpur hægt
að hugmynd okkar
um nýja jörð.
Heildarmyndhverfing ljóðsins, eggið sem brotnar, verður býsna víð-
feðm í þessu knappa, óbundna ljóði. Engum mótífum er bætt við
yrkisefnið. Hér er vissulega nýstárleg líking á ferðinni: deginum er
líkt við egg sem brotnar þegar hann endist ekki lengur og umgjörð
hans brestur. Hvítan og síðan rauðan lita náttúruna og renna saman
við hana. Mynd ljóðsins felur í sér daginn, rökkrið, kvöldroðann,
landslag.
Síðustu tvær ljóðlínurnar beina athyglinni inn á við, tjáningin verð-
ur innhverf og þar af leiðandi túlkunaratriði. Hver er „hugmynd
okkar um nýja jörð“? Við minnumst þess að Gröndal sá líka „í
andans geimi“ eitthvert óskaland friðar og hamingju — andstæðu
hinnar dimmu tíðar. Matthías hefur sjónarhorn 1. persónu fleirtölu í
sínu ljóði. Hann boðar ekki einkahugmynd um „nýja jörð”, þetta hlýt-
ur að vera óskaland okkar allra. Og kann það að vera hin sama
hugsjón og Gröndal tjáði á sinn skrúðmála, umbúðamikla hátt.
Sólsetrið veldur hughrifum, a.m.k. hjá þeim sem skynja fegurð í
náttúrunni. Við sólarlag tekur jörðin myndbreytingu í bókstaflegri
merkingu og færir okkur tilfinningu friðar, hugarástand sem er gagn-
tekið af fegurð. Við óskum okkur öllum til handa að jörðin verði ný
og betri en við höfum gert hana: að hún verði friðarstaður.
Þetta er vitanlega einungis tilgáta um hugmyndina í ljóði Matthías-
ar. Hver og einn verður að yrkja sína túlkun þegar hann les slíkt ljóð
því að skáldið ætlar sér ekki að færa okkur hana óyggjandi eins og
gert var í hinum gamla kveðskap.
Tungl og stjörnur
Að síðustu verður rýnt í kvæðin „Marsnóttin“ eftir Gyrði Elíasson og
„Tunglskinsnótt“ eftir Guðmund Friðjónsson.
Gyrðir Elíasson er eitt þeirra skálda sem vakið hafa mesta athygli
síðustu tvo áratugina. Dulmagnað umhverfi og ævintýraminni eru
algeng í ljóðum hans og sögum. Tunglskin, stjörnur og myrkur voru
vinsæl fyrirbæri í hinum rómantíska skáldskap og þá jafnan hluti af
útsýni í tilveru óheftrar náttúru eða dreifbýlis. Þessi ljóðrænu mótíf