Gripla - 01.01.1993, Page 115
ÚTILEGUMANNALEIKRIT MATTHÍASAR JOCHUMSSONAR 115
þýðingar danskra leikrita, m.a. leikrita Holbergs. Hinar dönsku
leiksýningar báru glöggt vitni um ítök Dana í höfuðstaðnum og skort á
íslenskum leikritum. Á fimmta áratugnum dró þó nokkuð úr dönskum
áhrifum í Reykjavík. Hvorttveggja var að íslenskum Reykvíkingum
fjölgaði meir en dönskum og eins hitt að íslendingarnir efldust heldur
að völdum ef nokkuð var. Latínuskóli landsins var fluttur frá Bessa-
stöðum til Reykjavíkur 1846 og prestaskóli stofnaður ári síðar. Við
þetta styrktist þjóðfrelsishreyfingin í höfuðstaðnum. Jafnvel ósigur
hennar á þjóðfundinum 1851 og deilur íslendinga innbyrðis á sjötta
áratugnum gátu ekki heft framgang hennar. Vísast hefur mörgum þótt
þróunin of hæg og ekki veitti því af félagsskap sem tæki málin fastari
tökum. Þess vegna stofnaði hópur þjóðrækinna háskólaborgara, iðnað-
armanna og pilta úr Latínuskólanum leynilegt málfundafélag árið 1861.
Það hét upphaflega Leikfélag andans, en síðar var nafninu breytt í
Kvöldfélagið.8 Kvöldfélagið lét bæjarmál mjög til sín taka, en jafnframt
var tilgangur þess ‘að reyna að vekja innlent menntalíf, sér í lagi í
skáldskap og fögrum menntum’.9 Um þjóðleg fræði voru félagarnir
áhugasamir í besta lagi, því að tíu þeirra skráðu þjóðsögur fyrir hinn
mikla þjóðsagnasafnara Jón Árnason og samþykkt var á fundi félags-
ins árið 1861 að safna alþýðukveðskap. Það kemur líka berlega í ljós að
félagsmenn hafa treyst allmjög á þjóðfræði til að efla skáldskapinn því
að snemma árs er samþykkt að veita verðlaun fyrir bestu drápu um
útilegumanninn Fjalla-Eyvind. Fróðlegt væri að vita hvers vegna
Kvöldfélagsmenn höfðu svona mikinn áhuga á þessum meinhæga úti-
legumanni frá síðasta hluta 18. aldar, en rökstuðningur þeirra hefur því
miður glatast algerlega. Annars stóð íslensk leikstarfsemi styrkari fót-
um en fyrr árið 1861 vegna starfsemi Sigurðar Guðmundssonar mál-
ara.10 Hann var áhugamaður mikill um leiklist og brennandi þjóðernis-
sinni í því sem öðru og áhugi hans var borinn uppi af listrænum hæfi-
leikum og kunnáttu. Um árabil hafði Sigurður stundað myndlistarnám
í Kaupmannahöfn og hann lét ekki deigan síga við málaraiðju sína eft-
ir að hann kom heim alkominn árið 1858. Tveimur árum síðar varð
hann frumkvöðull að svokölluðum ‘þöglum sýningarþáttum’, en í þeim
8
Um Kvöldfélagið eða Leikfélag andans sjá greinina Leikfélag andans eftir Lárus
Sigurbjörnsson í Skírni CXXI, 1947, bls. 33-59.
9 Tilv. ritgerð, bls. 39.
10 Lárus Sigurbjörnsson, ‘Sigurður málari’, Skírnir CXXIII, 1949, bls. 25-44.