Gripla - 01.01.1993, Page 119
ÚTILEGUMANNALEIKRIT MATTHÍASAR JOCHUMSSONAR 119
Valda úr Áradal 17. aldar, en hann er hvorki dularfullur né göldróttur
eins og Skugga-Valdi. Ekki er heldur greint frá ástæðunni fyrir útlegð
Skugga-Sveins eins og oft í útilegumannasögum. Hann er aðeins ’út-
skúfaður öllum frá’23, og við honum ‘taka vildi ei neinn’24, og er síðara
orðtakið frekar í stfl fornsagna en þjóðsagna seinni alda. Þarna er
einnig Ögmundur fóstri Haralds sem hefur flúið í óbyggðir sökum
galdraáburðar og er það í réttum útilegumannasagnastfl. Ögmundur er
kristinn, Skugga-Sveinn og Ketill skrækur, fylgisveinn hans, heiðnir;
sumir útilegumenn voru kristnir en aðrir heiðnir samkvæmt sögnunum.
Matthías sótti sér efni í fleiri sagnaflokka en útilegumannasögur.
Galdramaðurinn Héðinn er að sjálfsögðu vestan úr Arnarfirði eins og
allir hinir römmustu galdramenn, og skáldið vitnar til gamalla galdra-
mannasagna sem einhvern veginn hafa festst við Sæmund Sigfússon í
Odda.25 En Galdra-Héðinn glúpnar þegar skólapiltar fara að þylja fyrir
honum latínuna, enda töldu alþýðumenn töframátt mikinn fólginn í
henni.26 Svo segja skólapiltarnir Margréti hlægilegar skröksögur til að
reyna trúgirni hennar og ýkjusögur Grasa-Guddu, vinnukonu Sigurðar
bónda, eru snoðlíkar sögunum af Vellygna-Bjarna í þjóðsagnasafni
Jóns Árnasonar.27 Matthías greip líka óspart til draugasagna. Á 19. öld
höfðu sagnir af uppvakningum orðið þeirra algengastar í munnmælum,
enda koma þær fyrir í Útilegumönnunum og Skugga-Sveini. Hinn al-
kunni Þorgeirsboli eltir vinnumann og annar draugur bindur saman
hala á kúm í fjósi.28 Þá sækja vofur að Skugga-Sveini, vofur þeirra sem
hann hafði myrt. Draumar koma einnig þarna fyrir eins og í þjóðsög-
um og fornsögum. Harald dreymir konu sem gefur honum í skyn nálæg
endalok Skugga-Sveins og lausn Haralds og Ögmundar úr útlegðinni.
Miklu minna fer fyrir þjóðkvæðum. Skólapiltarnir yrkja auðvitað
beinakerlingavísur, vísur sem voru látnar í leggi í vörður á fjöllum uppi
23 -
Utilegiimennirnir, 3. þáttur, 4. atriði.
24 Sama stað.
25 Hér er átt við sagnirnar Fabula um Sæmund fróða (JÁ I, bls. 469^170; annað af-
brigði frá 19. öld er Svartiskóli í JÁ I, bls. 475-476) og Sæmundur fróði fær Oddann (JÁ
I, bls. 478).
26 Um mátt latínunnar til galdra sjá JÁ III, bls. 467-468 og JÁ IV, bls. 91.
27 Vellygni Bjarni, JÁ IV, bls. 247-250.
28 Um Þorgeirsbola sjá skrá um mannanöfn, drauga og vætta í JÁ VI, en þessi
draugur kemur oft fyrir í sögnum í öðrum þjóðsagnasöfnum. I sögninni Púkinn og fjósa-
maðurinn (JÁ I, bls. 481) er það kölski sem bindur kýrnar saman á hölunum og í ann-
arri, sem heitir Sálufélag Sæmundar (JÁ I, bls. 472), er það Sæmundur sjálfur.