Gripla - 01.01.1993, Page 122
122
GRIPLA
kóngsins á Stevns og Haraldur dvelst nauðugur í útilegumannaflokki
Skugga-Sveins. Þar að auki vita þau ekki um hinn sanna uppruna sinn.
Hann kemur svo í ljós að lokum og þar leikur Ögmundur líkt hlutverk
og Karen í Elverhpj. Bæði eiga þátt í því að leiða menn í allan sann-
leika. I Skugga-Sveini beinir svo hin trygga vinnukona Grasa-Gudda
yfirvöldunum á rétta braut í stað Ögmundar í Útilegumönnunum.
Sönnunargögnin eru misjöfn. í Útilegumönnunum er það bréf, fæðing-
arblettur í Skugga-Sveini en í Elverhpj hringur sem konungurinn hefur
gefið hinni réttu Elísabetu. Þá eru ástamálin nátengd réttindaveitingu
Agnete og Haralds. Æðstu handhafar ríkisvaldsins á hvorum stað leysa
ungmennin úr nauðum og veita þeim með hjúskap þá stöðu sem þeim
ber samkvæmt ætt og uppruna.
En líta má víðar til átta. í ævisögunni getur Matthías þess hve djúp
áhrif Ræningjar Schillers hafi haft á sig.34 Vandséð er nákvæmlega
hvaða áhrif sá lestur hefur haft á þetta hrifnæma upprennandi skáld.
Geta má þess til að rekja megi hugmyndina að samningu Útilegu-
mannanna til Ræningjanna, auk ferðar Matthíasar um íslensk öræfi
sumarið 1861, eins og Steingrímur J. Þorsteinsson hefur bent á.35 Þá
hafði Matthías líka ‘vaðið í gegnum flest Shakespeares rit’36 og vafa-
laust lært af þeim hitt og þetta um mannlýsingar og tíðaranda. Þá hefur
áhugi vina Matthíasar á drápunni um Fjalla-Eyvind ekki dregið úr. Nú
verður það aldrei vitað með öruggri vissu hvers vegna Matthías valdi
útilegumannasögur sem efnivið í þessa frumsmíð sína. Hitt er varla til-
viljun að hann hafði til hliðsjónar m.a. útilegumannasögur um menn
sem ekki vildu eyða ævi sinni í útlegð á fjöllum uppi heldur gerast
bændur í byggðum og deyja svo í sátt við guð og menn eins og Fjalla-
Eyvindur og margar höfuðpersónur í eldri sögnum.
í Útilegumönnunum og Skugga-Sveini er lýst mjög andúð Haralds á
lífi útilegumannanna og þrá hans eftir venjulegu lífi í byggðum, og
minnir þetta á hið fræga kvæði Sunnudagur selstúlkunnar eftir Jörgen
Moe. Nú er fjöllunum samt lýst sem fögrum stöðum og nytsömum,
þaðan eru m.a. fjallagrösin, og nauðsynlegar grasaferðir Sigurðar í Dal
34 Sögukaflar afsjálfum mér, 2. útg., bls. 139.
35 Sjá tilv. ritg. hans, bls. xix-xxi.
36 Bréfið um lesturinn á leikritum Shakespears er skrifað 17. mars 1862 til Stein-
gríms Thorsteinssonar, pr. í Bréfum Matthíasar Jochumssonar, Akureyri 1935, bls. 7. í
öðru bréfi til sama viðtakanda sést að Matthías hefur lesið ‘svensku útlegginguna hans
Hagbergs’, sbr. Bréf, bls. 8.