Gripla - 01.01.1993, Page 152
152
GRIPLA
er geymdin óáreiðanleg en nefna má að hvorki er formáli fyrir Fagur-
skinnu né Hákonar sögu Hákonarsonar. Fáir formálar standa fyrir
þýddum riddarasögum og hlutfallslega fáir fyrir frumsömdum ridd-
arasögum.
Niðurstaðan er þessi: Lítill hluti íslenskra sagnarita hefur formála.
Þetta vekur sérstaka athygli og krefst skýringa, þar sem lausamálsverk
hafa nær undantekningarlaust formála í evrópskum bókmenntum, eins
og doktorsefni segir. En hann gefur þessu efni lítinn gaum og leggur
áherslu á það í inngangi sínum að rannsókn sfn varði formála en ekki
formálaleysi; það liggi utan rannsóknarsviðsins. Á þessa afstöðu get ég
ekki fallist, því að ógerningur er að draga upp skýra mynd af áhrifum
erlendrar formálahefðar á íslenska söguritun og meta þau réttilega án
þess að gera glögg skil á stöðu og fjölda formála í því heildarsafni sem
bókmenntirnar eru. Öðruvísi sagt verður lærð bókmenntahefð hvorki
skilin né túlkuð á viðhlítandi hátt nema með því að hafa að staðaldri í
huga ekki aðeins formála íslenskra bóka heldur og formálaleysi þeirra.
Þessa stöðu hefur doktorsefni ekki gaumgæft sem skyldi við fræðilegar
útlistanir og ályktanir í bók sinni, jafnvel þótt hann slái varnagla í nið-
urstöðum sínum með þessum orðuni:
Þess ber þó að gæta að þessar tilvitnanir (þ.e. formáladæmin) eru
aðeins ályktunarhæfar um nokkurn hlut íslenskra fornbók-
mennta, þar sem formálar eru ekki fyrir öllum forníslenskum
Iausamálsverkum (323).
í ritgerðarlok víkur S.T. að formálaleysi íslendingasagna og veltir
fyrir sér hvort skýringa á því sé að leita til þess að íslendingasögurnar
væru alinnlend bókmenntagrein og hefði mótast af sagnahefðinni eða
formálaleysið yrði þrátt fyrir allt skýrt eftir reglum mælskufræðinnar
(328-29). Þar koma fram lauslegar hugmyndir um að mælskufræðin
ylli þrátt fyrir allt formálaleysi íslendingasagna, og tel ég ekki ástæðu
til að fara frekar út í þær. En doktorsefni er samt tvístígandi og vísar
vandanum frá sér, þar sem íslensk sagnahefð sé ekki í hans verkahring.
En augljósasta og um leið einfaldasta skýringin á formálaleysinu er, að
það fylgi þeim bókmenntagreinum, sem eiga innlendar rætur, íslend-
ingasögum, fornaldarsögum og veraldlegum samtíðarsögum, en for-
málar séu fyrir þeim greinum, sem teljast aðkomnar, helgisögum og