Gripla - 01.01.1993, Page 157
UM FORMÁLA ÍSLENSKRA SAGNARITARA
157
Þessa niðurstöðu styður Sverrir með ýtarlegri könnun á fjölda fræði-
rita um þróun mælskufræðinnar á miðöldum og með greiningu á ís-
lenskum formálum og þeim ritklifum sem þar eru notuð. Sá saman-
burður sýnir ótvírætt að íslensku formálarnir eru í beinu samhengi við
bókmenntahefð miðalda.
í þessari rannsókn hefur höfundur dregið saman mikinn fróðleik og
leitað fanga í aragrúa rita, eins og sjá má af heimildaskrá hans sem er á
hvorki meira né minna en 25 blaðsíðum. Mikill fjöldi þeirra rita sem
þar er vísað til er ekki tiltækur hér á landi, enda er bókin að mestu
leyti samin erlendis. En einmitt þessi heimildaskrá er þörf ábending
um þá skelfilegu fátækt íslenskra bókasafna í þeim fræðum sem snerta
íslenskar miðaldarannsóknir: bók eins og þessa hefði einfaldlega ekki
verið hægt að semja hér á landi.
Bókin hefst á inngangi sem er greinargott yfirlit um nokkur megin-
hugtök í mælskufræði og um gerðir formála, þróun hvors tveggja á
miðöldum, svo og um skólakennslu og latínukunnáttu, og að lokum er
rætt um ritklif og bókmenntagreinar á miðöldum. Þetta yfirlit er vita-
skuld að mestu leyti unnið upp úr ritum fræðimanna, en það er næsta
þarflegt að fá slíkt yfirlit á íslensku, og það mætti raunar verða skyldu-
lestur stúdenta í íslenskum miðaldabókmenntum. En auk þess er þessi
inngangur nauðsynlegt baksvið þess sem á eftir fer, þar er lýst þeirri
bókmenntahefð sem lá að baki formálaritunar á íslandi og þeirrar
bókagerðar sem á einhvern hátt studdist við erlendar fyrirmyndir, þær
fyrirmyndir sem íslendingar höfðu kynnst með latínulærdómi og lestri
erlendra rita.
Þau íslensk rit sem hér koma við sögu eru einkum þrenns konar:
kirkjuleg eða trúarleg rit, veraldleg sagnarit og sumar greinar skemmt-
unarsagna, þ.e. riddarasögur og fáeinar fornaldarsögur. Formálar
þeirra eru sumir þýddir eða stældir eftir erlendum forritum, aðrir
frumsamdir af höfundum eða safnendum og endursemjendum.
Nálega öllum þessum formálum er það sameiginlegt að í þeim koma
fyrir ritklif sem kunn eru úr erlendum miðaldaritum. Að vísu er það
misjafnt hversu mörg þeirra koma fyrir í hverjum einstökum formála,
eða með öðrum orðum hversu vandlega formálarnir fylgja skólabóka-
forskriftum miðalda. Fyrir þessu gerir höfundur rækilega grein í fyrri
hluta bókar, og verður ekki annað sagt en að hann hafi fært gild og
skilmerkileg rök fyrir máli sínu.
Fyrri hlutanum skiptir höfundur í þrennt, eftir því hvaða atriði koma