Gripla - 01.01.1993, Page 158
158
GRIPLA
beint fram í formálunum eða verða úr þeim lesin: í fyrsta lagi er til-
gangur, í öðru lagi tilefni og í þriðja lagi viðhorfið til eftiisins. f þessum
þáttum eru einstök efnisatriði og ritklif formálanna rakin hvert í sínu
lagi og borin saman við erlendar fyrirmyndir. Þessi aðferð hefur óhjá-
kvæmilega í för með sér töluverðar endurtekningar, vegna þess að
sami formálinn og sömu dæmin koma fyrir og eru tekin til athugunar
oftar en einu sinni í mismunandi samhengi, eftir því hver efnisþáttur
formálanna er til umræðu. Við þessu verður þó ekki gert eins og bók-
inni er niðurskipað, enda þótt það lengi bókina verulega, og stundum
örli á því að ummæli höfundar um einstaka staði séu ekki með öllu
samhljóða. Hinsvegar hefur þessi aðferð þann kost að hún gefur tilefni
til ýtarlegri greinargerðar og samanburðar við erlend rit. Sömuleiðis
varpar þessi aðferð stundum ljósi á tengsl formálanna við verkin sjálf,
en þau tengsl geta verið með ýmsum hætti og eru ekki ævinlega háð
því hversu mikil brögð eru að ritklifum í formálunum sjálfum. Enn
fremur er þessi vandlega greining formálanna gagnleg til þess að átta
sig á því hvort þeir séu varðveittir í upphaflegri mynd eða hvort líklegt
sé að rjálað hafi verið við þá í síðari eftirritum. Hér verður þó að fara
með gát, því að torvelt er að sanna t.d. að ákveðin ritklif hafi verið
felld burt úr formálum, enda þótt þau hefðu átt að standa þar sam-
kvæmt forskriftum skólabóka. Enda tekur Sverrir sjálfur fram og sýnir
um það dæmi að því fer fjarri að öll venjubundin ritklif komi fram í
hverjum formála.
Enn má nefna eitt atriði sem leiðir af þessari efnisskipun. Þær breyt-
ingar sem urðu á gerð formála frá því á 12. öld og fram á þá 14. koma
tæplega nógu skýrt í ljós. Með þessu er ég ekki að halda því fram að
Sverrir hafi ekki gert sér ljóst að þvílíkar breytingar hafi átt sér stað,
síður en svo. Það er ljóst af mörgum ummælum hans víðs vegar í bók-
inni. Stutt greinargerð sem tekur aðeins til nokkurra atriða er þannig á
bls. 54-56. Þar segir m.a.: ‘Þegar líða tekur á 13. öld verður enn aug-
ljósara en fyrr að nákvæmar er fylgt forsögnum mælskufræða’. Þetta er
vitaskuld hárrétt og um það eru nefnd ýmis dæmi hér og þar síðar í
bókinni, t.d. um beina ritbeiðni (bls. 86 o.áfr.), um margorðara lof um
helga menn (bls. 113 o.áfr.) og um þann sið að endurgera helgisagnir,
auka þær á ýmsan hátt og breyta stíl þeirra (bls. 99,144 og áfr.). Þarna
er vitaskuld ekki aðeins um það að ræða að fara nákvæmar eftir for-
skriftum skólabóka, heldur eru að baki aðrar hugmyndir um stfl, aðrar
fyrirmyndir erlendra bóka. Breytingar á formálunum eru aðeins þáttur