Gripla - 01.01.1993, Page 162
162
GRIPLA
hún hafi verið á latínu, enda veit ég ekki hvort Sverrir hefur hugsað
sér það. En konunga ævi í einhverri mynd hefur þó verið í fyrri gerð
íslendingabókar.
Mér virðist allt eins líklegt að Ari hafi vissulega haft hugmynd um
þau formsatriði sem títt var að hafa í formálum en ekki ætlað sér að
beita þeim öllum. Ávarp til biskupanna þurfti hann ekki að hafa ef að-
eins var um hvatningu til starfa að ræða en ekki beina ritbeiðni. Grein-
argerð fyrir heimildum er ekki í formála Ara, en hinsvegar telur hann
upp marga heimildarmenn sína í textanum. Hverjar aðrar heimildir
hefði hann þá átt að nefna í formála?
Það er vafalaust rétt, eins og segir á bls 157, að ummæli Ara um
biskupana og Sæmund eigi að vera e.k. trygging fyrir traustleika ritsins.
Þetta er að vissu leyti hliðstætt tilvísunum til Gissurar Hallssonar í for-
málum Hungurvöku og Ólafs sögu Odds munks. Mér virðist því skorta
rök fyrir því að rjálað hafi verið við formála Ara eða úr honum fellt,
en tilgátan um það á bls. 387 er hugvitsamlegri en hvað hún er sennileg.
Kaflinn um tilefni verkanna er hinn fróðlegasti, en þar er dregið
saman það sem lesa má úr formálunum um orsakir þess að verkin voru
samin. Þetta hefur ekki verið gert áður og er í alla staði hið þarfasta
verk. Eina smávegis athugasemd vildi ég þó bera fram. Á bls. 96 er ýj-
að að því að gerð Jóns sögu B hafi átt að knýja enn á um helgi Jóns
biskups af því að hann hefði aldrei verið kanóníséraður af páfa. Um
þetta vitum við of lítið, en Sverrir kemur að þessu máli síðar þar hann
ræðir um tilgang dýrlingasagna (bls. 147-8). Þar telur hann að lat-
ínusögurnar um hina helgu biskupa hafi átt að stuðla að þvf að þeir
fengjust kanóníséraðir. í því sambandi segir hann að páfi hafi árið 1170
einn fengið vald til þess að útnefna dýrlinga. Þetta er fullmikið sagt,
því að páfar voru lengi að berjast fyrir þessum rétti á síðari helmingi
12. aldar og fram á þá 13. Formlega samþykktur var þessi einkaréttur
páfa á Lateranþinginu 1215 og sú samþykkt var tekin upp í decretalia
Gregors IX 1234. Upp úr því hófust réttarrannsóknir páfastóls á verð-
andi dýrlingum. Hitt er rétt að fyrsta páfabréfið sem heimtar þennan
rétt var gefið út 1172, en það var Alexander III sem amaðist við
sænsku dýrlingskjöri, þar sem dýrlingsefnið þótti heldur lélegur
kandídat, en þetta bréf var síðan grundvöllur kröfunnar um einkarétt
páfa í þessu efni. Það er því fremur ólíklegt að íslenskir kirkjuhöfðingj-
ar um 1200 hafi leitað eftir viðurkenningu páfa á helgi þeirra Þorláks
og Jóns, enda eru um það alls engar heimildir. Hinu má aftur á móti