Gripla - 01.01.1993, Page 170
170
GRIPLA
III
SVÖR SVERRIS TÓMASSONAR
Ég vil þakka ritstjóra Griplu fyrir að gefa mér kost á að birta svör við
ræðum andmælendanna, Bjarna Guðnasonar og Jakobs Benediktsson-
ar, við doktorsvörn mína 2. júlí 1988. Eins og venja er til, var vörn mín
mælt af munni fram, en það sem hér fer á eftir er byggt á skrifuðum
minnispunktum mínum og fært í samfellt mál þegar liðið var meira en
ár frá athöfninni. Svör þau sem hér birtast hafa því að geyma lungann
af því sem ég sagði við vörnina en einnig sitthvað sem ég vildi sagt
hafa.
SVAR VIÐ RÆÐU 1. ANDMÆLANDA
Athugasemdum Bjarna Guðnasonar má skipta í tvo aðalhluta. Sá fyrri
er eins konar inngangur en hinum síðari skiptir hann niður í fimm
þætti, þar sem hann ræðir fyrst byggingu verksins, því næst skilgrein-
ingu á hugtakinu formáli, í þriðja lagi fjallar hann um afmörkun rann-
sóknarefnisins, þá ‘formálaskýringar’ og loks þann þátt sem hann kýs
að kalla ‘formálahefð og innlenda frásagnarhefð’.
Ég mun nú víkja að athugasemdum hans, lið fyrir lið. í upphafi mun
ég þó ræða um forspjall andmælaræðunnar þar sem birtist skilningur
hans á viðfangsefninu. Ég er engan veginn sáttur við þá túlkun hans og
tel að hann hafi misskilið þau grundvallarhugtök sem rannsóknin er
reist á.
I inngangi bókar minnar, Formálar íslenskra sagnaritara á miðöld-
um, tek ég skýrt fram að formálar séu einn þáttur bókmenntahefðar.
Enn frekari áherslu hafði ég lagt á þetta í undirtitli bókarinnar: Rann-
sókn bókmenntahefðar. Þessi hefð er sumpart runnin frá klassískum
mælskufræðum, sumpart frá fræðiritum og túlkunum kristinna höfunda
á þeim. I íslenskum formálum frá miðöldum lá hún ekki í augum uppi
fyrr en málið hafði verið kannað. Ég veit ekki til þess að það hafi verið
gert fyrr en með fyrstu rannsókn minni á þessu efni, kandídatsritgerð
minni, sem andmælandi minn raunar þekkir vel en fáir aðrir því að
hún var samin undir tilsjón hans og hefur aldrei birst. Orð Bjarna
Guðnasonar um að tengsl íslenskra formála við erlenda hafi legið í
augum uppi eru þess vegna ofmælt og teljast til þess sem miðaldamenn