Gripla - 01.01.1993, Page 218
218
GRIPLA
ÁGRIP
I Islendingasögum bregðast menn að jafnaði ‘hetjulega’ við dauða sínum, en í
lýsingum á dauða manna í Sturlungu og konungasögum er oft að finna kristi-
leg viðbrögð manna. Dauðamaðurinn játar syndir sínar, biðst fyrir og óskar
jafnvel eftir því að aftaka hans verði teygð á langinn. Oft má þá finna atriði
sem minna á efni úr helgisögum eða hliðstæður við líflát heilagra manna. í
einu tilviki - frásögninni af drápi Sigurðar slembidjákns - hefur því verið hald-
ið fram að líflátinu sé lýst sem píslarvætti og að sagan sé rituð í því skyni að
gera hetjuna að helgum manni.
Sú skýring er hugsanleg að slíkar lýsingar séu aðeins bókmenntalegt láns-
góss sem ekki hafi neina trúarlega merkingu. En með því að ísland hafði verið
kristið í aldir þegar sögurnar voru skrifaðar, verður þetta að teljast ólíklegt.
Ástand sálarinnar á dauðastund mannsins réð farnaði hennar í öðrum heimi.
Hún mundi hljóta refsingu í hreinsunareldi fyrir allar ójátaðar syndir; og væru
þær ofurþungar mátti synja hinum framliðna um legstað í vígðri moldu. Lýsing
á syndajátningu og bænagjörð og samlíking við líf heilagra manna glæddi von
um velfarnað sálarinnar í öðrum heimi. Og ef teikn bentu til þess að maður
hefði verið saklaus veginn, styrkti það stöðu frænda hans í illdeilunum.
Petta mun hafa verið flestum söguhöfundum efst í huga, en þó verður einnig
að gera ráð fyrir því að stundum sé reynt að gera menn að helgimönnum. í
valdabaráttu á Norðurlöndum var algengt að reynt væri að upphefja fallna for-
ingja í tölu dýrlinga, og margir þeirra voru helgir haldnir í sinni heimabyggð.
Á Islandi virðist mönnum hafa gengið miður að koma upp slíkum hér-
aðsdýrlingum, þótt stundum væri reynt. Hungurvaka og aðrar biskupasögur
kunna margt að segja frá dýrðarverkum íslenskra manna, sem komandi kyn-
slóðir gátu haft í minnum til merkis um heilagleika þeirra. í ritgerðinni er lýst
beinum tilraunum til að hefja menn í flokk dýrlinga.
I síðasta hluta ritgerðar er fjallað nánar um sögur þriggja Islendinga og sýnt
hversu þær megi túlka samkvæmt því er að framan segir. Ég rek fyrst það sem
Marlene Ciklamini segir um feril Sturlu Sighvatssonar og fylgi túlkun hennar:
Sturla var mörgum syndum hlaðinn, en iðraðist þó í tæka tíð fyrir dauða sinn.
Á sama veg má túlka þróun Þorgils skarða, en bænir Brands biskups virðast þó
valda því að hann snýr huga sínum til trúarinnar undir lokin. Aron Hjörleifs-
son er sýndur sem góður Kristsmaður (að minnsta kosti á mælikvarða mið-
alda), en eini dýrlingurinn í sögu hans er Guðmundur biskup Arason. En
Hrafns saga Sveinbjarnarsonar er hins vegar hlaðin af helgiefni, og má vel vera
að höfundur hafi litið á Hrafn sem helgan mann og vænst þess að saga hans
mundi stuðla að því að hann yrði tekinn í dýrlinga tölu.