Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 6
og Michel Foucault mótuðu hugmyndir um. Þannig leggur Steinar sinn
skerf til umræðunnar um rökhugsunina og myndbreytingu hennar. Sami
tónn er sleginn í grein Geirs Sigurðssonar sem beinir sjónum að daóískum
hugmyndum um sambúð manns og náttúru. Í anda hinna austurlensku
hugsuða heldur Geir því fram að miklu skipti að vestrænn hugarheimur
tileinki sér hugmyndir um samþættingu og samhljóm manns og náttúru
sem markast af skilningi á því hvernig maður og náttúra mynda heild, en
eru ekki tvennt ólíkt.
Ein grein utan þema birtist í Ritinu að þessu sinni: Svanur Kristjánsson
heldur þar áfram rannsóknum sínum á aðdragandanum að lýðveldisstofn-
un á Íslandi og beinir sjónum að því hvernig Sveinn Björnsson ríkisstjóri
sætti lagi á árunum 1941–44 og stjórnaði í anda eins konar „konunglegs
lýðveldis“, þar sem þingbundin stjórn fór með framkvæmdarvaldið ásamt
þjóðhöfðingjanum. Svanur færir rök fyrir því að þessi stjórnskipun og
verklag ríkisstjórans hafi mótað stjórnarskrá hins íslenska lýðveldis og sett
mark sitt á stjórnarfar þess.
Tvær þýðingar birtast í þessu hefti, og eru báðar einkar gott dæmi um
hin óljósu og breytilegu mörk heimspeki og bókmennta. Voltaire er óefað
sá heimspekingur sem hvað þekktastur er fyrir skáldverk sín, sem iðulega
teljast reyndar öðrum þræði heimspekileg. Sagan sem hér birtist í þýðingu
Gróu Sigurðardóttur, „Míkrómegas“, er sígild heimspekisaga að hætti
Voltaires og bregður upp lifandi og ótrúlega nútímalegri svipmynd af
afstæði allra hluta. Höfundur hinnar þýðingarinnar sem hér birtist er ekki
síður þekktur fyrir tíðar ferðir sínar yfir landamæri heimspeki og bók-
mennta: Jean-Paul Sartre. Annan ritstjóra Ritsins renndi í grun að Gunnar
Harðarson lumaði á gamalli þýðingu á kafla úr verki Sartres, Hvað eru bók-
menntir?, og reyndist það rétt er að var gáð. Gunnar brást ljúfmannlega
við beiðni ritstjóra um að birta þýðinguna í Ritinu, og er óhætt að segja að
mikill fengur sé að textanum þeim arna í þessu samhengi – enda leitun að
meiri spámönnum en Sartre þegar ætlunin er að taka á þeirri spurningu
sem heimspekingar, skáld og bókmenntafræðingar (og fleiri) eiga við að
stríða: Hvers vegna að skrifa?
Ásdís R. Magnúsdóttir og Björn Þorsteinsson
6
BJÖRN ÞoRSTEINSSoN oG ÁSDÍS R. MAGNÚSDÓTTIR