Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 7
7
Tungumálið íslenska, sem raunar hét ýmist „vor tunga“, „dönsk tunga“
eða „norræna“ þar til það fékk sitt núverandi heiti upp úr miðri 16. öld,
hefur gegnum söguna verið allopið fyrir nýjungum, sérstaklega ef hægt var
að pakka þeim inn í gamlar umbúðir. Frá upphafi ritaldar á 12. öld, eða svo
langt sem heimildir ná, hafa notendur þessa máls tekið upp framandi orð í
nokkrum mæli,1 en þó í mun meira mæli smíðað ný íslensk,2 og helst þá úr
öðrum orðum sem fyrir voru í málinu. Þannig hafa þeir gert að sínu það
sem þeim þótti til fyrirmyndar í latínu, frönsku, þýsku, ensku, dönsku,
forngrísku, eða öðrum tungum sem skiptu þá máli.
Flest tungumál hafa raunar verið opnari fyrir nýjungum en íslenska og
mörg veita framandi orðum viðtöku svo til möglunarlaust. Við sem notum
íslensku höfum hins vegar bundið hendur okkar af ströngum innhverfum
viðmiðum, og viljum helst aðeins „hugsa á íslenzku“, eins og Þorsteinn
Gylfason orðaði það svo eftirminnilega.3 Nýyrðasmiðir á íslensku setja sig
í stellingar til þess að gera hið nýja gamalt, og best þykir ef nýyrðið er
„gagnsætt“ eða ósýnilegt sem slíkt, líkt og það hafi alltaf verið til í málinu.
En málið er merkileg skepna, því við hvert nýyrði, sérstaklega ef það virð-
ist gamalt í málinu, loðir merkingararfur sem teygir þýðingu þess heimul-
lega burt frá því framandi inntaki sem í upphafi þótti svo eftirsóknarvert.
1 Svo sem biskup, bók, lestur, páskar, ölmusa, lirfa, sónn, vín, olía, banani, kaffi,
tóbak og mörg fleiri.
2 Svo sem skurðgoð, heiðni, höfundur, hófsemi, réttlæti, samviska, hugmynd, þjóð-
veldi, sannleikur, fyrirgefning, einfeldni og óteljandi mörg önnur.
3 orðalagið kom fyrst fram í titli greinar hans frá 1973, „Að hugsa á íslenzku“,
Skírnir 147, 1973, bls. 129–158.
Gottskálk Jensson
Af merkingarusla
í heitum háskólagreina
Hugleiðing um sögu 18. aldar nýyrðanna
„bókmenntir“ og „heimspeki“
Ritið 3/2010, bls. 7–35