Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Qupperneq 21
21
ar, en bæði „í manninum sjálfum“ og „fyrir utan hann“. Hér fæðist nýr
Íslendingur, sem ber fegurðina í sjálfum sér, og þarf sjaldan að leita hennar
utan sjálfs sín.
Vandséð er að finna megi nokkurn jafn stuttan kafla og þennan sem
skýrir eins vel á íslensku hina nýju „hugmind“ (annað uppáhaldsnýyrði
Fjölnismanna) um „bókmenntir“ og hvað hangir á spýtunni með þessu
hugtaki. Þegar merking orðsins breytist úr því að vera „bóklegar menntir“,
þrengist hún ekki aðeins heldur hleður einnig utan á sig knippi hugmynda
sem loðað hafa við hana upp frá því. Þessu nýja bókmenntahugtaki fylgir
fyrirheit um fegurð og nytsemi bókmennta sem litast af byltingarkenndri
óþreyju ungra menntamanna, því bókmenntirnar og tungan eru endurskil-
greind sem pólitísk tæki er búa yfir sprengikrafti sem getur frelsað þjóðina
frá sjálfri sér (leti sinni og aumingjaskap), til sjálfrar sín (eins og hún var í
fornöld og ætti að verða aftur í framtíðinni). Til verður hin þjóðlega
þversögn um varðveislu og endurreisn hins upprunalega (fornbókmennta
og tungu) með óþreytandi endursköpun og nýsmíði máls og menningar.
Í næsta Fjölni verður framhald á þessari þjóðmenningarlegu framfara-
hyggju í löngum fréttapistli er nefnist „Eptirmæli ársins 1835, eins og það
var á Íslandi“. Þegar að fréttum af bókmenntum á Íslandi kemur lesum
við:
Menn hafa nemt til þess þrjá hluti, að helzt mætti af þeím ráða
framfarir þjóðanna, og hafa menn sagt, að þeír hlutir ættu mest-
ann þátt í farsæld og velvegnun þeírra; enn það eru bókment-
irnar, stjórnar-athæfið og trúarbrögðin. Af bókmentunum að
ráða, erum við ekki ennþá komnir mjög lángt á veg; því við
erum valla farnir að athuga nitsemi þeírra, og ætlum þær vera
eínúngis til skjemtunar og fróðleiks. Af því hefir leitt þann
anmarka á ritgjörðum Íslendínga, að flestir hafa látið þar við
lenda, að fá fólki eítthvað að skjemta sjer við, enn farið of fjærri
þörfum og nauðsinjum lesendanna, og ekki nógsamlega aðgjætt,
að bókmentirnar verða ekki að því gagni, sem þær gjeta orðið,
firr enn þær fara að ransaka þá hluti, sem eru nánastir þeím, sem
bækurnar eru ætlaðar: atvinnu-hætti og framkvæmdir manna,
ásigkomulag þeírra og lífernisháttu – eíns og nú er títt með
öllum siðuðum þjóðum. Bækurnar eru sá speígill, sem þær þikj-
ast ekki meíga án vera, til að gjeta sjeð á deígi hvurjum, hvurnig
allt fari á sjer. Það mælist, ennþá sem komið er, ekki vel firir hjer
AF MERKINGARUSLA Í HEITUM HÁSKÓLAGREINA